Erlendur maður skráði sig á hótel og pantaði leigubíl vitandi að hann væri smitaður af kórónuveirunni. Í kjölfarið var maðurinn sektaður um 350 þúsund krónur. Þetta kemur fram í vikulegu uppgjöri lögreglunnar á Suðurlandi en atvikið átti sér stað innan umdæmis hennar 26. ágúst síðastliðinn. Málinu er nú lokið að sögn lögreglu.
Einnig kemur fram að 40 ökumenn voru kærðir fyrir hraðakstur í umdæmi lögreglunnar á Suðurlandi og hafa þá alls 1.749 ökumenn verið kærðir fyrir of hraðan akstur það sem af er ári á Suðurlandi. Þá voru fimm ökumenn grunaðir um ölvun við akstur í síðustu viku og þrír til viðbótar fyrir að nota farsíma við akstur.
Til viðbótar stöðvaði lögregla þrjá sem óku próflausir og þar af einn sem aldrei hafði öðlast ökuréttindi. Enn fremur voru þrír sektaðir fyrir að aka án öryggisbeltis. Allir voru stöðvaðir á umferðarpósti sem lögreglan á Höfn hafði sett upp í bænum.