Kæra hefur verið lögð fram á hendur ósakhæfum manni, sem vistaður er í öryggisvistun á Akureyri, fyrir að hafa veist að átta ára dreng sem var á leið heim úr skóla. Sviðsstjóri búsetusviðs Akureyrarbæjar harmar atvikið. RÚV greinir frá þessu.
Maðurinn, sem er 21 árs, var á gangi fyrir utan heima hjá sér og hafði tvo starfsmenn með sér þegar hann stekkur í burtu og tekur átta ára dreng kverkataki, að því er fram kemur í frétt RÚV. Enn fremur segir þar að starfsmennirnir sem voru með manninum hafi ekki gert neitt rangt. Það sem gerðist hafi verið hörmulegt slys.
Bergur Jónsson hjá rannsóknardeild lögreglunnar á Akureyri segir í samtali við RÚV að embættið taki málið mjög alvarlega. Kæra hafi verið lögð fram en að hann tjái sig ekki frekar að svo stöddu.