„Í sjálfu sér erum við komin á svipaðan stað og við vorum á í upphafi árs, með þeirri óvissu sem því fylgir. Verkefnið er það sama og blasti við okkur á þeim tíma, bara að fara í gegnum skaflinn og taka einn dag í einu,“ segir Hlynur Elfar Þrastarson, framkvæmdastjóri svefnbílaleigunnar Kuku Campers.
Eftir að reglur um sóttkví við komu til landsins tóku gildi minnkaði ferðamannastraumur hingað og hafa mörg fyrirtæki þurft að grípa til ráðstafana vegna þess. „Traffíkin okkar hrapaði á sama tíma og nýjar reglur um sóttkví tóku gildi,“ segir Hlynur.
Þó varð reksturinn betri en svörtustu spár gáfu til kynna, að sögn Hlyns.
„Vissulega fengum við nokkrar fínar vikur og það var sérstaklega gaman að sjá hvað Íslendingar tóku okkur vel,“ segir hann.
Árstímar eru sveiflukenndir í rekstrinum og færri að störfum á veturna. Lítur Hlynur svo á að veturinn hafi komið snemma í ár en sumarið byrjað seint.
„Okkar verkefni er að fara í gegnum skaflinn, taka einn dag í einu, laga okkur að aðstæðum og gera okkar besta til að tryggja rekstrargrundvöll fyrirtækisins,“ segir Hlynur sem ber fullt traust til ráðamanna í faraldrinum, enda séu gildar ástæður fyrir sóttvarnareglunum.