Jón Steinar Gunnlaugsson, lögmaður og fyrrverandi hæstaréttardómari, segir það slæm tíðindi að Róbert Spanó, forseti Mannréttindadómstóls Evrópu (MDE), hafi þegið nafnbót heiðursdoktors við Háskólann í Istanbúl, í aðsendri grein sem birtist í Morgunblaðinu í dag.
„Þetta eru vond tíðindi. Sérstaklega að dómarinn skuli þiggja svona fjólur af ríki sem allir vita að reglulega forsmáir vernd mannréttinda og hefur þurft að verjast fjölmörgum kærum fyrir MDE undanfarin misseri, m.a. fyrir brot á tjáningarfrelsi borgara sinna,“ skrifar Jón.
Telur Jón að dómarar við MDE ættu aldrei að þiggja viðurkenningar sem þessar frá aðildarríkjum Mannréttindadómstólsins, þar sem ríkin séu aðilar til varnar í kærumálum sem til hans berast.
„Það er því ekki við hæfi að dómarar taki við atlotum þeirra. Slíkt hlýtur að rýra traust til dómstólsins. Allra helst á þetta við þegar í hlut á ríki sem er blóðugt upp fyrir axlir af mannréttindabrotum sínum eins og Tyrkir eru. Róbert hefði hreinlega átt að nota þetta tækifæri til að uppræta hefðir af þessum toga, hafi þær yfirhöfuð verið fyrir hendi,“ skrifar Jón.
Í niðurlagi greinarinnar spyr Jón hvers vegna Róbert Spanó hafi haldið að Tyrkir hafi viljað hengja á hann orðu og hvort honum detti ekki í hug að það kunni að vera vegna viljans til að gera hann vinveittan stjórnvöldum þar í landi.