Mál ensku landsliðsmannanna Phils Fodens og Masons Greenwoods er til rannsóknar hjá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu og er sú rannsókn á lokametrunum. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir sagði að sér sýndist málið klárt brot á reglum um sóttkví.
Eins og fram hefur komið fengu þeir Foden og Greenwood, sem báðir léku sinn fyrsta A-landsleik í knattspyrnu gegn Íslandi á Laugardalsvellinum á laugardaginn, heimsókn frá tveimur íslenskum stúlkum á hótelherbergi sitt í Reykjavík í gær og brutu með því sóttvarnareglur.
„Mín fyrstu viðbrögð voru þau að það ætti að ógilda úrslitin,“ sagði Þórólfur og glotti en England vann Ísland 1:0 í Þjóðadeildinni á laugardag.
Rögnvaldur Ólafsson aðstoðaryfirlögregluþjónn svaraði því hvorki játandi né neitandi hvort sekta ætti landsliðsmennina fyrir brott á sóttvarnareglum en sagði rannsókn málsins á lokametrunum.