Þurfa að meta hvort boðið er viðeigandi

Róbert Spanó með Erdogan Tyrklandsforseta.
Róbert Spanó með Erdogan Tyrklandsforseta. AFP

Dóm­ar­ar við Mann­rétt­inda­dóm­stól Evr­ópu þurfa sjálf­ir að meta hvort við hæfi sé að þiggja vegtyll­ur eins og heiðurs­doktor­nafn­bót þá sem Ró­bert Spanó þáði við há­skól­ann í Ist­an­búl í síðustu viku. Þetta kem­ur fram í grein sem Davíð Þór Björg­vins­son, vara­for­seti Lands­rétt­ar og fyrr­um dóm­ari við Mann­rétt­inda­dóm­stól­inn, skrif­ar á heimasíðu sína.

Sú ákvörðun Ró­berts Spanó, for­seta Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu, að fara á fund Er­dog­ans Tyrk­lands­for­seta og þiggja heiðurs­doktors­nafn­bót við há­skól­ann í Ist­an­búl hef­ur verið harðlega gagn­rýnd af mann­rétt­inda­frömuðum og fleir­um. Gagn­rýn­end­um þykir það skjóta skökku við gagn­vart gild­um og niður­stöðum dóm­stóls­ins að for­seti hans taki við heiður­s­nafn­bót frá rík­is­rekn­um há­skóla í Tyrklandi.

Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrum dómari við MDE.
Davíð Þór Björg­vins­son, vara­for­seti Lands­rétt­ar og fyrr­um dóm­ari við MDE. mbl.is/​RAX

Í grein sinni rek­ur Davíð Þór að sam­kvæmt siðaregl­um fyr­ir dóm­ara Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins sé þeim ekki bannað að þiggja heiðurs­doktors­nafn­bæt­ur, enda hafi sum­ir þegið slík­ar og mögu­lega fleir­um verið boðnar þær en afþakkað. Hver og einn þurfi að meta hvort boðið sé viðeig­andi.

„Við það mat ber þeim að hafa í huga að þær gefi ekki rétt­mætt til­efni til að draga í efa sjálf­stæði þeirra og óhlut­drægni. Traust borg­ara aðild­ar­ríkja sátt­mál­ans á dóm­stóln­um, sem bygg­ir starf sitt að lang­stærst­um hluta á kær­um frá ein­stak­ling­um, er í senn rétt­læt­ing og for­senda fyr­ir til­vist hans,“ skrif­ar Davíð Þór.

Hann rek­ur jafn­framt að staða mann­rétt­inda­mála í Tyrklandi sé slæm. Landið hafi að margra mati lengi verið svarti sauður­inn í sam­starfi ríkja á vett­vangi Evr­ópuráðsins. „Hafa umræður um hvort Tyrk­land sé yf­ir­höfuð gjald­gengt í þessu sam­starfi verið þrálát­ar. Niðurstaðan af þessu hef­ur þó, með réttu, ávallt verið sú að væn­legra sé fyr­ir mann­rétt­indi þar í landi og fyr­ir tyrk­neska borg­ara að hafa Tyrk­land  með. Hafa kær­ur ein­stak­linga til MDE skilað fjöl­mörg­um þeirra góðum ár­angri í stór­um mál­um og smá­um,“ skrif­ar Davíð.

„Vitn­is­b­urður um slæma stöðu mann­rétt­inda­mála í Tyrklandi er sú staðreynd að fyr­ir MDE bíða nú þúsund­ir mála af­greiðslu,“ seg­ir Davíð Þór og rek­ur að hann hafi verið meðal fram­sögu­manna á fundi tyrk­nesku lög­manna­sam­tak­anna í An­kara árið 2017 en þar var staða mann­rétt­inda rædd, sem og hlut­verk Mann­rétt­inda­dóm­stóls­ins. „Minn boðskap­ur var sá að MDE væri veik stofn­un við svona aðstæður og illa til þess fall­in að hafa skjót og merkj­an­lega áhrif í krísu­ástandi af því tagi sem segja má að hafi skap­ast í Tyrklandi hin síðustu ár. Dóm­stóll­inn hafi ekki yfir að búa tækj­um og tól­um sem geri hon­um það kleift.“

Davíð velt­ir því upp hvort heim­sókn Ró­berts hafi átt rétt á sér og hvort tíma­setn­ing henn­ar hafi verið heppi­leg. 

„Má þar nefna að gríðarleg­ur mála­fjöldi frá Tyrklandi set­ur dóm­stól­inn í vanda og get­ur haft lam­andi áhrif á virkni hans. Úrlausn­ir hans í ein­stök­um mál­um, jafn­vel mörg­um árum eft­ir að meint brot áttu sér stað eru aug­ljós­lega ekki til þess falln­ar að bæta ástandið eins og það er nú,“ skrif­ar hann og bæt­ir við að með heim­sókn­um af þessu tagi gef­ist tæki­færi til að kynna dóma­fram­kvæmd dóm­stóls­ins beint fyr­ir æðstu ráðamönn­um og minna á skyld­ur þeirra sam­kvæmt mann­rétt­inda­sátt­mál­an­um til að taka mið af þeim í ákvörðunum sín­um og hvetja þá til að bæta ráð sitt þar sem þess er þörf.

Gera verður ráð fyr­ir að ákvörðun um að þekkj­ast boðið á þess­um tíma­punkti hafi byggst á þess­um sjón­ar­miðum. Boðskap­ur mann­rétt­inda­sátt­mál­ans og dóm­stóls­ins hef­ur sjald­an átt meira er­indi í Tyrklandi en ein­mitt nú,“ seg­ir Davíð en bend­ir jafn­framt á að all­ur um­búnaður slíkr­ar ferðar „verði að vera skýr um að borg­ara­leg og póli­tísk rétt­indi ein­stak­linga séu í for­grunni og þar sé eng­inn af­slátt­ur veitt­ur. Af umræðum má merkja að marg­ir telja að þetta hafi ekki tek­ist sem skyldi og heim­sókn­in hafi í rík­ari mæli en æski­legt væri hverfst um þá ráðamenn er mesta ábyrgð bera á ástandi mála í Tyrklandi en síður verið lögð áhersla á að tala með skýr­um hætti til þeirra sem telja mann­rétt­indi sín hafa verið fót­um troðin. Ef það er rétt er það til þess fallið að veikja til­trú margra tyrk­neskra borg­ara á dóm­stóln­um ein­mitt þegar mik­il þörf er fyr­ir hið gagn­stæða. Von­andi er þetta ekki rétt.“

Ró­bert Spanó sagði í svari við fyr­ir­spurn mbl.is að hann muni ekki tjá sig frek­ar um málið. Vísaði hann í það sem haft var eft­ir hon­um í helgar­blaði Frétta­blaðsins en þar kom fram að Ró­bert teldi að sterk rök hafi verið bæði með og á móti því að hafna um­rædd­um titli vegna ástands­ins í Tyrklandi.

„Að hafna þessu hefði líka verið gagn­rýnt harðlega í hina átt­ina og stjórn­völd sakað dóm­stól­inn um að vera póli­tísk­an,“ sagði Ró­bert við Frétta­blaðið.



mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert