Þurfa að meta hvort boðið er viðeigandi

Róbert Spanó með Erdogan Tyrklandsforseta.
Róbert Spanó með Erdogan Tyrklandsforseta. AFP

Dómarar við Mannréttindadómstól Evrópu þurfa sjálfir að meta hvort við hæfi sé að þiggja vegtyllur eins og heiðursdoktornafnbót þá sem Róbert Spanó þáði við há­skól­ann í Ist­an­búl í síðustu viku. Þetta kemur fram í grein sem Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrum dómari við Mannréttindadómstólinn, skrifar á heimasíðu sína.

Sú ákvörðun Ró­berts Spanó, for­seta Mann­rétt­inda­dóm­stóls Evr­ópu, að fara á fund Er­dog­ans Tyrk­lands­for­seta og þiggja heiðurs­doktors­nafn­bót við há­skól­ann í Ist­an­búl hef­ur verið harðlega gagn­rýnd af mann­rétt­inda­frömuðum og fleir­um. Gagn­rýn­end­um þykir það skjóta skökku við gagn­vart gild­um og niður­stöðum dóm­stóls­ins að for­seti hans taki við heiður­s­nafn­bót frá rík­is­rekn­um há­skóla í Tyrklandi.

Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrum dómari við MDE.
Davíð Þór Björgvinsson, varaforseti Landsréttar og fyrrum dómari við MDE. mbl.is/RAX

Í grein sinni rekur Davíð Þór að samkvæmt siðareglum fyrir dómara Mannréttindadómstólsins sé þeim ekki bannað að þiggja heiðursdoktorsnafnbætur, enda hafi sumir þegið slíkar og mögulega fleirum verið boðnar þær en afþakkað. Hver og einn þurfi að meta hvort boðið sé viðeigandi.

„Við það mat ber þeim að hafa í huga að þær gefi ekki réttmætt tilefni til að draga í efa sjálfstæði þeirra og óhlutdrægni. Traust borgara aðildarríkja sáttmálans á dómstólnum, sem byggir starf sitt að langstærstum hluta á kærum frá einstaklingum, er í senn réttlæting og forsenda fyrir tilvist hans,“ skrifar Davíð Þór.

Hann rekur jafnframt að staða mannréttindamála í Tyrklandi sé slæm. Landið hafi að margra mati lengi verið svarti sauðurinn í samstarfi ríkja á vettvangi Evrópuráðsins. „Hafa umræður um hvort Tyrkland sé yfirhöfuð gjaldgengt í þessu samstarfi verið þrálátar. Niðurstaðan af þessu hefur þó, með réttu, ávallt verið sú að vænlegra sé fyrir mannréttindi þar í landi og fyrir tyrkneska borgara að hafa Tyrkland  með. Hafa kærur einstaklinga til MDE skilað fjölmörgum þeirra góðum árangri í stórum málum og smáum,“ skrifar Davíð.

„Vitnisburður um slæma stöðu mannréttindamála í Tyrklandi er sú staðreynd að fyrir MDE bíða nú þúsundir mála afgreiðslu,“ segir Davíð Þór og rekur að hann hafi verið meðal framsögumanna á fundi tyrknesku lögmannasamtakanna í Ankara árið 2017 en þar var staða mannréttinda rædd, sem og hlutverk Mannréttindadómstólsins. „Minn boðskapur var sá að MDE væri veik stofnun við svona aðstæður og illa til þess fallin að hafa skjót og merkjanlega áhrif í krísuástandi af því tagi sem segja má að hafi skapast í Tyrklandi hin síðustu ár. Dómstóllinn hafi ekki yfir að búa tækjum og tólum sem geri honum það kleift.“

Davíð veltir því upp hvort heimsókn Róberts hafi átt rétt á sér og hvort tímasetning hennar hafi verið heppileg. 

„Má þar nefna að gríðarlegur málafjöldi frá Tyrklandi setur dómstólinn í vanda og getur haft lamandi áhrif á virkni hans. Úrlausnir hans í einstökum málum, jafnvel mörgum árum eftir að meint brot áttu sér stað eru augljóslega ekki til þess fallnar að bæta ástandið eins og það er nú,“ skrifar hann og bætir við að með heimsóknum af þessu tagi gefist tækifæri til að kynna dómaframkvæmd dómstólsins beint fyrir æðstu ráðamönnum og minna á skyldur þeirra samkvæmt mannréttindasáttmálanum til að taka mið af þeim í ákvörðunum sínum og hvetja þá til að bæta ráð sitt þar sem þess er þörf.

Gera verður ráð fyrir að ákvörðun um að þekkjast boðið á þessum tímapunkti hafi byggst á þessum sjónarmiðum. Boðskapur mannréttindasáttmálans og dómstólsins hefur sjaldan átt meira erindi í Tyrklandi en einmitt nú,“ segir Davíð en bendir jafnframt á að allur umbúnaður slíkrar ferðar „verði að vera skýr um að borgaraleg og pólitísk réttindi einstaklinga séu í forgrunni og þar sé enginn afsláttur veittur. Af umræðum má merkja að margir telja að þetta hafi ekki tekist sem skyldi og heimsóknin hafi í ríkari mæli en æskilegt væri hverfst um þá ráðamenn er mesta ábyrgð bera á ástandi mála í Tyrklandi en síður verið lögð áhersla á að tala með skýrum hætti til þeirra sem telja mannréttindi sín hafa verið fótum troðin. Ef það er rétt er það til þess fallið að veikja tiltrú margra tyrkneskra borgara á dómstólnum einmitt þegar mikil þörf er fyrir hið gagnstæða. Vonandi er þetta ekki rétt.“

Róbert Spanó sagði í svari við fyrirspurn mbl.is að hann muni ekki tjá sig frekar um málið. Vísaði hann í það sem haft var eftir honum í helgarblaði Fréttablaðsins en þar kom fram að Róbert teldi að sterk rök hafi verið bæði með og á móti því að hafna umræddum titli vegna ástandsins í Tyrklandi.

„Að hafna þessu hefði líka verið gagnrýnt harðlega í hina áttina og stjórnvöld sakað dómstólinn um að vera pólitískan,“ sagði Róbert við Fréttablaðið.



mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert