18 aðgerðir til að draga úr plastnotkun

Grámávur flýgur með plast í gogginum.
Grámávur flýgur með plast í gogginum. mbl.is/Bogi Þór Arason

Umhverfis- og auðlindaráðherra kynnti á fundi ríkisstjórnarinnar í morgun áætlunina Úr viðjum plastsins. Hún samanstendur af átján aðgerðum sem miða að því að draga úr plastnotkun í samfélaginu, auka endurvinnslu plasts og sporna gegn plastmengun í hafi.

Meira en helmingur aðgerðanna er þegar kominn til framkvæmda, til að mynda bann við afhendingu burðarpoka án gjaldtöku, að því er segir í tilkynningu.

Í sumar samþykkti Alþingi frumvarp umhverfis- og auðlindaráðherra þar sem bann var lagt við markaðssetningu ýmissa einnota plastvara, svo sem bómullarpinna, hnífapara og blöðruprika.

Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra.
Guðmundur Ingi Guðbrandsson umhverfissráðherra. mbl.is/Kristinn Magnússon

Skylda flokkun á úrgangi

Unnið er að því að skylda flokkun á úrgangi og samræma flokkunarmerkingar á landinu öllu með frumvarpi sem lagt verður fram á Alþingi í vetur. Þá á að auka endurvinnslu á plasti með hagrænum hvötum. Á næsta áratug mun ríkið aðstoða sveitarfélög á landinu fjárhagslega svo hægt sé að ráðast í frekari endurbætur á fráveitukerfum og hefta þannig losun örplasts í hafið, til að mynda með grænum ofanvatnslausnum.

Auglýst verður eftir verkefnum á heimasíðu ráðuneytisins í haust. Um allar þessar aðgerðir er nánar fjallað í áætluninni.

Mikilvægt að grípa til aðgerða

„Að ráðast gegn plastmengun er áskorun sem allar þjóðir heimsins standa frammi fyrir og hafa óæskileg áhrif plastmengunar á lífríki komið æ betur í ljós á síðustu árum og er mikilvægt fyrir íslenskt samfélag að grípa til aðgerða til að draga úr óábyrgri og óþarfri notkun plasts hér á landi, auka endurvinnslu plasts og lágmarka magn þess plasts sem ratar út í umhverfið, ekki síst til sjávar,“ segir Guðmundur Ingi Guðbrandsson, umhverfis- og auðlindaráðherra, í tilkynningunni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert