Á Austurlandi er nú síðsumars búið að fella 940 hreindýr, sem er um 70% af þeim veiðikvóta sem Umhverfisstofnun gefur út. Kýrnar sem náðst hafa eru 486 og tarfarnir 454.
Margir veiðimenn hafa verið á ferðinni eystra að undanförnu og telst kunnugum til að um helgina hafi um 80 dýr verið skotin. Mest er veiðin á svæðinu frá Jökulsá á Dal norður til Bakkafjarðar og svo á Fljótsdalsheiðinni, það er svæði 1 og 2, enda er mikið af kvótanum merkt þeim svæðum, að sögn Jóhanns Guttorms Gunnarssonar, sérfræðings hjá UST á Egilsstöðum.
Heildarkvóti á hreindýraveiðunum í ár er 1.325 dýr. Veiðarnar hafa að mestu gengið vel, að sögn Jóns Hávarðs Jónssonar, formanns Félags leiðsögumanna með hreindýraveiðum. „Að veiðar gangi vel þýðir að veðrátta hefur haldist sæmileg og frátafir af þeim sökum litlar, auk þess sem dýr hafa yfirleitt verið finnanleg á þeim slóðum þar sem veiði- og leiðsögumenn hafa farið um,“ segir Jón Hávarður í Morgunblaðinu í dag.