Forsvarsmenn veitingahússins Tjöruhússins á Ísafirði vonast til að geta að geta opnað staðinn á ný á næstu dögum en hann var innisiglaður af lögreglu á föstudaginn síðasta. Í yfirlýsingu á facebooksíðu staðarins kemur fram að hann hafi verið innsiglaður vegna vanskila á gögnum til skattyfirvalda.
„Taka ber fram að ekki er um að ræða vangreiðslur á opinberum gjöldum eða skil á virðisaukaskatti eða öðrum rekstrargjöldum, í versta falli seingreiðslur. Þau gögn sem komin eru yfir skilafrest – og yfirleitt hafa skilafrest – teljast um einum og hálfum mánuði of sein. Þeim gögnum, sem okkur bar að skila, hefur nú verið skilað. Aldrei stóð annað til,“ segir í yfirlýsingunni.
Þar segir ennfremur að meðal þess sem krafist hafi verið sé afrit af ráðningarsamningum við starfsmenn, afrit af launaseðlum fyrir júnímánuð auk afrita af vinnuskýrslum og vaktaplönum.
„Nú megum við vissulega skammast okkar fyrir að hafa ekki verið fljótari að bregðast við kröfum skattsins, sem fram voru settar hinn 10. júlí sl., og við mótmælum því ekki að yfirvöldum er að því er virðist frjálst að fylgja þeim eftir af slíkri hörku. Þrátt fyrir að okkur kunni að þykja aðgerðir sem þessar yfirdrifnar – og að því er virðist tímasettar til að hafa sem mest áhrif á starfsemina – þá vitum við upp á okkur seinlætið og hörmum það innilega,“ segir í yfirlýsingunni.
„Þegar þetta er skrifað eru umbeðin gögn í skoðun. Væntanlega getum við farið að afgreiða mat aftur á næstu dögum, en nánari fregnir að því munu birtast á þessum vettvangi. Við munum hér eftir leggja alla áherslu á að koma í veg fyrir skjalatafir af öllu tagi.“