Aðgerðir Skattsins „yfirdrifnar“

Ljósmynd/Wikimedia Commons

For­svars­menn veit­inga­húss­ins Tjöru­húss­ins á Ísaf­irði von­ast til að geta að geta opnað staðinn á ný á næstu dög­um en hann var inn­isiglaður af lög­reglu á föstu­dag­inn síðasta. Í yf­ir­lýs­ingu á face­booksíðu staðar­ins kem­ur fram að hann hafi verið inn­siglaður vegna van­skila á gögn­um til skattyf­ir­valda.

„Taka ber fram að ekki er um að ræða van­greiðslur á op­in­ber­um gjöld­um eða skil á virðis­auka­skatti eða öðrum rekstr­ar­gjöld­um, í versta falli sein­greiðslur.  Þau gögn sem kom­in eru yfir skila­frest  og yf­ir­leitt hafa skila­frest  telj­ast um ein­um og hálf­um mánuði of sein. Þeim gögn­um, sem okk­ur bar að skila, hef­ur nú verið skilað. Aldrei stóð annað til,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

Þar seg­ir enn­frem­ur að meðal þess sem kraf­ist hafi verið sé af­rit af ráðning­ar­samn­ing­um við starfs­menn, af­rit af launa­seðlum fyr­ir júní­mánuð auk af­rita af vinnu­skýrsl­um og vakta­plön­um. 

„Nú meg­um við vissu­lega skamm­ast okk­ar fyr­ir að hafa ekki verið fljót­ari að bregðast við kröf­um skatts­ins, sem fram voru sett­ar hinn 10. júlí sl., og við mót­mæl­um því ekki að yf­ir­völd­um er að því er virðist frjálst að fylgja þeim eft­ir af slíkri hörku. Þrátt fyr­ir að okk­ur kunni að þykja aðgerðir sem þess­ar yf­ir­drifn­ar  og að því er virðist tíma­sett­ar til að hafa sem mest áhrif á starf­sem­ina  þá vit­um við upp á okk­ur sein­lætið og hörm­um það inni­lega,“ seg­ir í yf­ir­lýs­ing­unni.

„Þegar þetta er skrifað eru umbeðin gögn í skoðun. Vænt­an­lega get­um við farið að af­greiða mat aft­ur á næstu dög­um, en nán­ari fregn­ir að því munu birt­ast á þess­um vett­vangi. Við mun­um hér eft­ir leggja alla áherslu á að koma í veg fyr­ir skjalataf­ir af öllu tagi.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert
Loka