Andlát: Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir, Adda Örnólfs

Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir.
Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir.

Arnbjörg Auður Örnólfsdóttir söngkona, betur þekkt sem Adda Örnólfs, lést á Landakotsspítala 2. september síðastliðinn, 85 ára að aldri.

Adda var ein vinsælasta söngkona þjóðarinnar á árum áður og söng eftirminnileg lög á plötur, eins og Bella símamær, Nótt í Atlavík og Bjarni og nikkan.

Adda fæddist á Suðureyri í Súgandafirði 4. maí árið 1935 og ólst þar upp í stórum systkinahópi. Foreldrar hennar voru Örnólfur Valdimarsson útgerðarmaður og Ragnhildur Þorvarðardóttir, húsmóðir og organisti við Suðureyrarkirkju.

Tíu ára flutti Adda til Reykjavíkur og skaut upp á stjörnuhimininn í söngvarakeppni á vegum KK sextettsins árið 1953, ásamt Ellý Vilhjálms og fleiri söngvurum. Á árunum sem í hönd fóru kom hún víða fram en lengst var hún söngkona Aages Lorange og hljóðfæraleikara hans, sem voru með eins konar húshljómsveit í Tjarnarkaffi við Vonarstræti í Reykjavík.

Á ferli Öddu voru hljóðrituð nærri 20 lög með henni sem komu út á hljómplötum. Adda hætti að mestu að syngja opinberlega 1959 en lögin hennar hafa komið út á safnplötum og eru enn reglulega spiluð í útvarpi.

Eftirlifandi eiginmaður Öddu er Þórhallur Helgason. Börn þeirra eru Helgi, Þóra Björg og Ragnhildur Dóra. Arnbjörg og Þórhallur eiga sex barnabörn og fjögur barnabarnabörn.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert