Skólabörn í 5. til 10. bekk í Kópavogi geta frá og með 11. september haft samband við Barnavernd Kópavogs með því að smella á hnapp í spjaldtölvu sinni, en öll börn í sveitarfélaginu á þessum aldri fá spjaldtölvu til afnota og með því að setja hnappinn í tölvuna er börnum auðveldað að koma ábendingum sínum á framfæri.
Fram kemur í tilkynningu frá Kópavogsbæ að hnappurinn opni aðgang að síðu þar sem börn geta lýst líðan sinni, áhyggjum eða aðstæðum og óskað eftir aðstoð barnaverndar fyrir sig sjálf eða önnur börn.
Foreldrar skólabarna hafa fengið upplýsingabréf frá skólayfirvöldum þar sem tilkynningarhnappurinn er kynntur. Skólabörn fá svo fræðslu dagana 10. og 11. september um hnappinn, tilgang hans og hlutverk barnaverndar.
Tilkynningarhnappurinn er hluti af innleiðingarferli Barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna í Kópavogi.