Lögreglan á Ísafirði reyndi að aðstoða stúlku í annarlegu ástandi þar sem hún var á gangi í bænum berfætt og í náttfötum í síðustu viku. Ekki tókst að komast að dvalarstað hennar eða áform hennar þar sem hún var mjög illa áttuð. Til að tryggja öryggi hennar var hún færð í fangaklefa og látin sofa úr sér vímuna. Var henni ekið til síns heima daginn eftir þegar hún gat upplýst um hvar hún ætti heima. Þetta kemur fram dagbók lögreglunnar á Vestfjörðum.
Á miðvikudagskvöld hafði lögregla afskipti af manni sem birtist á svölum nágranna síns á Ísafirði. Kvaðst maðurinn vera læstur úti og þyrfti að komast heim til sín en hann reyndist vera í annarlegu ástandi. Maðurinn veittist að gesti sem var í heimsókn þegar hann var beðinn um að fara aftur í sína íbúð. Maðurinn hlýddi svo ekki fyrirmælum lögreglu og hrækti í átt að lögreglumanni. Var hann vistaður í fangaklefa um nóttina. Þurfti lögregla að hafa aftur afskipti af honum síðar í vikunni vegna áreitis við nágranna sína.
Slagsmál brutust út milli nokkurra aðila á Bíldudal á föstudag. Einhverjir hlutu áverka og var því kallað eftir sjúkrabíl til að hlúa að þeim. Eftir átökin dró einn aðilinn upp hníf og var hann handtekinn í kjölfarið og vistaður í fangaklefa til næsta morguns. Atvikið er til rannsóknar hjá lögreglunni.
Á laugardag slasaðist ung stúlka á höfði eftir að hafa ekið fjórhjóli fram af árbakka. Var hún flutt á slysadeild í Fossvogi vegna áverka sinna en reyndist vera óbrotin. Maður sem var með henni á fjórhjólinu hlaut mar og skrámur en er heill að öðru leyti.
Sama dag var matvörupoka stolið úr anddyri verslunar Bónuss á Ísafirði meðan eigandi hans brá sér frá eitt augnablik inn í aðra verslun. Málið er í rannsókn og þiggur lögreglan upplýsingar um gerandann.
Brotist var inn í aðstöðu dýralæknis á Ísafirði aðfaranótt mánudags. Málið er til rannsóknar og biðlar lögregla til allra þeirra sem geta veitt upplýsingar um innbrotið.