Fæst dauðsföll vegna mengunar á Íslandi

Um 9% dauðsfalla á Íslandi eru rakin til loftmengunar.
Um 9% dauðsfalla á Íslandi eru rakin til loftmengunar. mbl.is/RAX

Ísland og Noregur eru með lægsta hlutfall, meðal allra annarra Evrópuríkja, þegar kemur að dauðsföllum sem rekja má til mengunar. Þetta kemur fram í skýrslu sem Umhverfisstofnun Evrópusambandsins, EEA, birti á dögunum.

Allt að 630 þúsund manns deyja árlega innan ríkja Evrópusambandsins vegna mengunar. Það gera um 13% dauðsfalla. Alþjóðaheilbrigðisstofnunin segir að koma megi í veg fyrir þessi dauðsföll með því að bæta loftgæði í stórborgum.

Af þeim dauðsföllum sem verða í Evrópu vegna mengunar eru um 90% rakin til sjúkdóma á borð við hjarta- og æðasjúkdóma, astma, nýrnabilunar, krabbameins og sykursýki.

Mikill munur er á vesturhluta og austurhluta álfunnar þegar kemur að dauðsföllum sem rakin eru til mengunar en hæst er hlutfallið í Bosníu og Hersegóvínu eða 27%. Líkt og fyrr segir er ástandið best á Íslandi og í Noregi þar sem 9% dauðsfalla eru rakin til mengunar. Meðal aðildarríkja Evrópusambandsins er það þó hæst í Rúmeníu eða 19% og lægst í Svíþjóð og Danmörku þar sem hlutfallið er 10%.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert