Afstaða, félag fanga og annarra áhugamanna um bætt fangelsismál og betrun, harmar ákvörðun Áslaugar Örnu Sigurbjörnsdóttur dómsmálaráðherra um að loka fangelsinu á Akureyri. Félagið hvetur Áslaugu til að skoða málið nánar og frá fleiri hliðum, meðal annars út frá tillögum félagsins um annars konar nýtingu þeirra fangarýma sem þar eru til staðar.
Í tilkynningu frá Afstöðu segir að mikil ánægja hafi ríkt meðal fanga með fangelsið á Akureyri og ekki síður starfsfólk fangelsisins, sem mun að óbreyttu láta af störfum.
„Þar missir Fangelsismálastofnun afskaplega vandað og hæft fólk úr vinnu. Áslaug Arna hefur einnig gert mikið úr því að um lokað fangelsi sé að ræða en að mati Afstöðu er ekki hægt að bera fangelsið á Akureyri saman við önnur lokuð fangelsi því andrúmsloftið líkist miklu frekar því sem ríkir á Kvíabryggju,“ segir í tilkynningunni.
„Með því að loka fangelsinu á Akureyri er ljóst að fjölskyldur fanga á Vestfjörðum og Norðurlandi þurfa um langan veg að fara sem er ekki í samræmi við það sem kemur fram í lögum um fullnustu refsinga þar sem segir að Fangelsismálastofnun skuli taka tillit til búsetu fanga og fjölskyldu hans þegar ákvörðun um vistunarstað er tekin,“ segir í tilkynningunni.
Afstaða segir vert að skoða að hverfa frá lokun fangelsisins á Akureyri og breyta því frekar í meðferðar- og endurhæfingardeild, sem tæki þá við af meðferðargangi á Litla-Hrauni. Meiri líkur eru á góðum árangri á sérstakri og aflokaðri meðferðardeild á Akureyri þar sem ekkert samneyti er við fanga sem eru á öðrum deildum og hafa ekki áhuga á að halda sig frá vímuefnum.