Alls hafa 494 milljónir króna skilað sér til ferðaþjónustufyrirtækja í sumar í gegnum ferðagjöf stjórnvalda. Mest hefur verið varið í gistingu, 156 milljónum króna, þá 145 milljónum á veitingastöðum og 140 milljónum í afþreyingu ýmiss konar. Fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu hafa fengið 146 milljónir af ferðagjöfinni og fyrirtæki á Suðurlandi 91 milljón.
Á Mælaborði ferðaþjónustunnar er birtur listi yfir þau tíu fyrirtæki sem mest hafa fengið í sinn hlut af ferðagjöfinni. Samanlagt hafa þau fengið 146 milljónir af 494. Efst á listanum trónir Flyover Iceland sem greinilega hefur slegið í gegn meðal landsmanna í sumar. Hafa alls 23 milljónir króna af ferðagjöfinni farið í umrædda sýningu. Í öðru sæti er Bláa lónið með 22 milljónir króna. Þar á eftir koma Íslandshótel með 22 milljónir, Flugleiðahótel með 18 milljónir og Flugfélag Íslands með 14 milljónir króna.
Bensínstöðvar Olís hafa fengið 13 milljónir í sinn hlut og N1-stöðvarnar 11 milljónir. Vök Baths, sem er að finna rétt utan við Egilsstaði, hafa algerlega slegið í gegn í sumar. Níu milljónir af ferðagjöfinni hafa ratað þangað.
Tveir af vinsælustu skyndibitastöðum landsins hafa notið góðs af ferðagjöfinni. Íslendingar hafa kosið að verja sjö milljónum til kaupa á Dominos-pítsum og sömu upphæð á kjúklingastaðnum KFC.
Algengt verð á máltíð á KFC er um 1.700 krónur. Því virðist sem Íslendingar hafi keypt yfir 4.100 máltíðir af djúksteiktum kjúklingi í boði stjórnvalda þetta sumarið. Sú upphæð gæti enn hækkað enda er gildistími ferðagjafarinnar til áramóta. Algengt verð á pítsum hjá Dominos er 3.500 krónur. Ef miðað er við það hafa Íslendingar keypt sér tvö þúsund pítsur fyrir ferðagjöfina í sumar.
Ferðagjöfinni var hleypt af stokkunum um miðjan júní. Allir einstaklingar 18 ára og eldri með lögheimili á Íslandi eiga rétt á 5.000 krónum sem nýta má við kaup á gistingu, mat og fleiru.