Á fundi skóla- og frístundaráðs Reykjavíkurborgar í dag var ákveðið að framlengja skertan þjónustutíma leikskóla borgarinnar til 31. október til þess að tími gefist í lok hvers dags til að huga að sóttvörnum.
Almennur þjónustutími leikskóla borgarinnar verður þannig frá klukkan 07:30 16:30. Breytingartillaga Sjálfstæðisflokksins var felld, en hún kvað á um að þjónustutími leikskólanna yrði ekki skertur og starfsmenn leikskóla sæju um sóttvarnir að vinnudegi loknum. Um væri að ræða tímabundna ráðstöfun og því ætti kostnaðurinn við þetta ekki að vera hár.
Í bókun fulltrúa Sjálfstæðisflokks við afgreiðslu málsins segir að skertur þjónustutími komi einkar illa niður á viðkvæmum hópum. Frekar eigi að verja fjármunum í að halda leikskólum opnum til klukkan 17:00 í stað þess að eyða þeim í gæluverkefni.
Þá segir einnig í bókuninni að komið hafi fram í bókun meirihlutans á fundi skóla- og frístundaráðs þann 18. ágúst síðastliðinn að það væri einbeittur vilji Reykjavíkurborgar að „halda úti faglegu og vönduðu skóla- og frístundastarfi á tímum Covid-19“. Þetta gangi í berhögg við nýsamþykkta tillögu meirihlutans um að skerða þjónustutíma leikskóla borgarinnar.
Fram kemur í kostnaðargreiningu sem gerð var af skóla- og frístundaráði fyrir fulltrúa minnihlutans að heildarkostnaður við að halda leikskólum opnum til klukkan 17:00 yrði tæplega 18 milljónir. Þar er gert ráð fyrir að starfsmönnum leikskólanna yrði greidd yfirvinna til 31. október fyrir að sinna sóttvörnum eftir að leikskólum er lokað hvern dag.