Rögnvaldur Ólafsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn almannavarnadeildar ríkislögreglustjóra, segir mikilvægt að ferðamenn leiti frekar eftir upplýsingum um tilhögun síðari skimunar við komuna til landsins en að sleppa henni.
Hollenska samfélagsmiðlastjarnan Noraly Schoenmaker kom hingað til lands í lok ágúst og fór í skimun við komuna. Fimm dögum síðar átti hún að fara í seinni skimun en fann hvergi út úr því hvert hún átti að snúa sér svo hún sleppti seinni skimuninni.
Rögnvaldur segist ekki hafa vitað af málinu en það verði líklega rannsakað.
„Ég hef ekki heyrt af þessu. Þetta á að vera tiltölulega skýrt og ef fólk lendir í vandræðum á það að geta leitað aðstoðar. Það er svolítið óvenjulegt að velja þess leið frekar en að leita sér upplýsinga. Það þýðir að þú ert í rauninni enn þá í sóttkvínni. Það er sýnatakan sem losar þig úr sóttkví,“ segir Rögnvaldur.
„Það eru allir skráðir hjá okkur eftir forskráningu svo þetta verður örugglega skoðað,“ segir Rögnvaldur.