Snyrtistofa braut ekki jafnréttislög með því að synja karlmanni um svokallað brasilískt vax. Þetta er niðurstaða kærunefndar jafnréttismála.
Karlmaður kærði svör snyrtistofunnar sem sagði að þjónustan væri ekki í boði fyrir karlmenn.
Kærunefndin taldi að skilja bæri málatilbúnað snyrtistofunnar á þann veg að verið væri að reyna að gæta velsæmis og koma í veg fyrir að blygðunarkennd starfsfólks yrði særð. Við þær aðstæður varð að mati kærunefndarinnar að gefa þó nokkurt svigrúm til að meta hvort bjóða ætti karlmönnum svo viðkvæma þjónustu.
Samkvæmt upplýsingum frá snyrtistofunni hefur aldrei verið boðið upp á umrædda þjónustu fyrir karlmenn frá stofnun stofunnar árið 2011.
Þjónustan hafi alla tíð verið takmörkuð við konur. Ástæða þess sé einfaldlega sú að starfsmenn hafi hvorki reynslu né þekkingu á því hvernig eigi að framkvæma þjónustuna fyrir karlmenn. Auk þess hafi starfsmenn ekki haft vilja til þess að sinna þessari þjónustu fyrir karlmenn. Um sé að ræða mjög viðkvæma þjónustu sem feli það í sér að vax sé borið á kynfæri viðskiptavina.
Um sé að ræða lítið fyrirtæki sem að undanförnu hafi staðið í margháttuðum erfiðleikum og rekstrarstöðvun vegna COVID-19. Eigandi stofunnar hafi hvorki áhuga né tök á að standa í einhverjum kærumálum. Þótt kæra þessi eigi ekki við nein rök að styðjast hafi kærði ákveðið að hætta að veita umrædda þjónustu fyrir konur. Þjónustan sem kæran lúti að sé því hvorki í boði fyrir konur né karlmenn.