Samkvæmt niðurstöðum vinnumarkaðsrannsóknar Hagstofunnar er áætlað að um 213.700 manns hafi verið á vinnumarkaði í júlí, sem jafngildir 82,2% atvinnuþátttöku. Af þeim voru um 202.600 starfandi og um 10.900 atvinnulausir. Starfandi fólki fækkaði um 5.900 milli ára og atvinnulausum fjölgaði um 5.100. Hlutfall starfandi var 78% í júlí og hafði lækkað um 2,8 prósentustig frá júlí 2019.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans.
Árstíðaleiðrétt hlutfall starfandi mældist 72,8% á 2. ársfjórðungi 2020 og hefur ekki mælst lægra síðan 2003 þegar þessar mælingar hófust. Hlutfallið var um einu prósentustigi lægra á 2. ársfjórðungi nú en það varð lægst eftir fjármálakreppuna.
Samkvæmt vinnumarkaðskönnun voru um 10.900 atvinnulausir í júlí, sem samsvarar 5,1% atvinnuleysi. Samkvæmt tölum Vinnumálastofnunar voru um 17.100 skráðir atvinnulausir í almenna bótakerfinu í lok júlí (án skerts starfshlutfalls), sem samsvarar 7,9% atvinnuleysi. Almennt atvinnuleysi að viðbættu atvinnuleysi í hlutabótakerfinu var hins vegar 8,8% í júlí.
Eins og oft áður eru sveiflurnar í mældu atvinnuleysi í vinnumarkaðskönnun Hagstofunnar miklar á milli mánaða. Atvinnuþátttaka hefur minnkað töluvert sem getur haft áhrif á niðurstöður vinnumarkaðskönnunar með þeim hætti að atvinnulausir teljast utan vinnumarkaðar í könnuninni ef þeir eru ekki í atvinnuleit. Í erfiðu atvinnuástandi eins og nú ríkir er líklegt að sú geti verið raunin.
Frá því kórónuveirufaraldurinn skall á hafa opinber úrræði til þess að draga úr afleiðingum áfallsins verið í sífelldri endurskoðun. Nú síðast var ákveðið að framlengja hlutabótaleiðina um tvo mánuði. Heimild til tímabundinna greiðslna vegna launa einstaklinga sem sæta sóttkví samkvæmt fyrirmælum heilbrigðisyfirvalda án þess að vera sýktir var framlengd til áramóta. Þá var tímabil tekjutengdra atvinnuleysisbóta lengt tímabundið úr þremur mánuðum í sex og möguleikar atvinnulausra til náms auknir.