Jarðborinn Nasi verður gangsettur í borholu Veitna við Bolholt 5 í Reykjavík á morgun og munu þá framkvæmdir á reitnum vera formlega hafnar. Til stendur að að rýma og fóðra borholuna að innan til þess að auka afköst hennar en borholan við Bolholt hefur þjónað borgarbúum allt frá árinu 1963. Þetta kemur fram í tilkynningu Veitna.
Áætlað er að framkvæmdin sjálf taki um fjórar til sex vikur og verður borað milli klukkan 7 á morgnana og 19 á kvöldin. Framkvæmdinni mun fylgja töluvert rask og hávaði, sérstaklega á meðan jarðborinn Nasi er í notkun.
Hjólandi og gangandi vegfarendur eru sérstaklega beðnir um að virða lokanir og nýta hjáleiðir.