Sóttvarnayfirvöld hafa nú til skoðunar að breyta reglum um sóttkví innanlands. Samkvæmt núgildandi fyrirkomulagi fara þeir sem verða berskjaldaðir fyrir smiti í 14 daga sóttkví. Þórólfur Guðnason sóttvarnalæknir hefur lagt til breytingar á fyrirkomulaginu við heilbrigðisráðherra.
Í samtali við mbl.is segir Þórólfur að engin ákvörðun hafi verið tekin. Í nýju fyrirkomulagi felst sóttkví í um viku og svo sýnataka á sjöunda degi sóttkvíar.
„Við erum að skoða hvort við gætum stytt sóttkví með sýnatöku og það er í ákveðnu ferli. Það hefur ekki verið tekin endanleg ákvörðun, en þetta yrði þá sýnataka á kannski sjöunda degi eða eitthvað slíkt. Ég er búin að senda tillögur um þetta í ráðuneytið því það þarf að breyta reglugerðinni,“ segir Þórólfur.
Mögulegar breytingar eru til þess fallnar að minnka áhrif sóttkvíar á samfélagið, en frá upphafi faraldursins í mars hafa tæplega 25.000 Íslendingar þurft að sæta sóttkví.