Hlutverk læsisfræðinga eru mörg og ólík en öll miða þau að því að veita börnum og kennurum aðstoð þegar kemur að lestri og ritun. Félag læsisfræðinga á Íslandi verður stofnað með formlegum hætti þriðjudaginn 22. september.
Læsisfræðingar eru þeir sem lokið hafa meistaragráðu í læsisfræðum við innlendan eða erlendan háskóla og eru því sérfræðingar á sviði náms og kennslu í læsi. Hlutverk læsisfræðinga geta verið fjölbreytt og þeir starfað á öllum skólastigum eða í einkageira. Þeir þekkja vel rannsóknir á sviði læsis og hvaða kennsluaðferðir eru raunprófaðar og hafa sýnt árangur. Störf læsisfræðinga geta snúið að beinni kennslu nemenda í læsi, greiningum á lestrarvanda, ráðgjöf og stuðningi við kennara og foreldra, auk aðkomu að stefnumótun varðandi læsiskennslu t.d. á sveitarstjórnarstigi eða á landsvísu.
Læsisfræðingarnir Auður Björgvinsdóttir, Guðbjörg Rut Þórðardóttir og Katrín Ósk Þráinsdóttir standa að stofnun félagsins og segja að stuðst sé við viðmið Alþjóðlegu læsissamtakanna sem gefin voru út árið 2017. Ekki er vitað hversu margir hafa lokið þessu námi á Íslandi en það er bæði kennt á meistarastigi við Háskólann á Akureyri og Háskóla Íslands. Eins hafa einhverjir lokið námi erlendis í læsisfræðum.
Eins og staðan er í dag þá á þessi starfsstétt mikið erindi inn í skólakerfið en kraftar hennar hafa alls ekki verið nýttir að fullu, segir Guðbjörg en hún og Katrín Ósk starfa sem sérfræðingar hjá Menntamálastofnun og Auður er verkefnisstjóri læsismála og skólasafnskennari við Álftanesskóla.
„Við viljum leggja meira af mörkum við að efla læsi,“ segir Katrín en meðal annars vinna læsisfræðingar með nemendum sem eiga í erfiðleikum með að ná tökum á lestri og ritun. Til þess þarf læsisfræðingur að búa yfir kunnáttu, þekkingu og vera tilbúinn að vinna með kennurum að því að bæta almenna læsiskennslu inni í bekk.
Læsisfræðingar greina lestrarörðugleika og gera tillögur um íhlutun og fylgja nemendum eftir. Eins eru þeir teymisstjórar læsisteyma og vinna við læsisstefnu skóla.
„Lestur er ekki afmörkuð tækni heldur samspil margra þátta,“ segir Auður. Að hennar sögn er of algengt hjá börnum sem eru að byrja í grunnskóla í dag að þau skorti orðaforða og þrautseigju til að takast á við lestrarnámið, þau eru vön að allt gerist svo hratt t.d. í tölvuleikjum. „Þetta hefur áhrif á lesturinn,“ segir hún.
„Markmiðinu er ekki náð þrátt fyrir að börn geti náð að tengja hljóð við bókstafi og þannig myndað orð,“ segir Katrín Ósk. Hún segir mjög lítið rætt um ritun og lítil áhersla lögð á ritun og uppbygginu texta sem tengist lesskilningi beint.
Þær segja að ritunin krefjist mikils tíma og það sé sennilega ástæðan fyrir því hversu lítil áhersla er lögð á hana í grunnskólum. Mikilvægt sé að gefa krökkum góðan tíma til að hugsa og velta fyrir sér viðfangsefninu. Þetta þarf að kenna – að leyfa huganum að ráða og forma hann í texta, segir Katrín Ósk. Lestur og ritun á að fara saman frá upphafi og allt niður á leikskólastigið. Grunnurinn er þar og þar þurfi að gæta þess að þau sjái ritað mál. Að það sé ekki bara lesið fyrir börn heldur þurfa þau líka að sjá ritmálið og hvernig það er notað í daglegu lífi.
Fimm ár eru liðin síðan mennta- og menningarmálaráðuneyti og sveitarfélög gerðu með sér Þjóðarsáttmála um læsi um það markmið að öll börn geti við lok grunnskóla lesið sér til gagns. Þær segja að undanfarin fimm ár hafi farið í að undirbyggja þetta markmið enda ekkert sem er leyst á stuttum tíma heldur langtímaverkefni.
Líkt og fram kemur í matsskýrslu sem dr. Katrín Frímannsdóttir tók saman segja fjölmargir áhrifaþættir og fjölbreyttar mælingar mun meira um árangur verkefnisins en eingöngu niðurstöður milli tveggja fyrirlagna PISA. Því ber að hafa í huga að ekki er réttlætanlegt né réttmætt mat að meta árangur læsisverkefnis á út frá niðurstöðum PISA 2018, þar sem þeir nemendur sem tóku PISA-könnunina 2018 voru í námi í 8. bekk þegar læsisverkefninu var ýtt úr vör.
Eitt af því sem oft er rætt um er lesfimipróf sem lögð eru fyrir grunnskólanemendur reglulega yfir veturinn. Margir líta svo á að eingöngu sé um hraðapróf að ræða en lesfimi sé mun flóknara fyrirbæri. Að sögn Auðar er því miður þann misskilning að finna hjá mörgum kennurum.
Það leiði af sér ranga framsetningu á niðurstöðum og eðli slíkra lesviðmiða segir Guðbjörg. „Þetta er eitt af því sem við erum að vinna að hjá Menntamálastofnun en á næstu vikum kemur úr matsrammi fyrir lesfimi sem beinir sjónum kennara og nemenda að fleiri þáttum lesfiminnar en eingöngu leshraða,“ segir Guðbjörg. Mikilvægt sé að meta ekki bara leshraða heldur einnig flæði og mótun hendinga svo dæmi séu tekin.
Fréttir af bágri stöðu íslenskra skólabarna þegar kemur að lesskilningi sýnir, er það ekki, að þörf er á auknum stuðningi inn í skólakerfið?
Auður segir að flestar stéttir og málefni eigi sérfræðinga sem málsvara. „Við hvern er talað ef eitthvað gerist í loftslagsmálum og svo framvegis? Misjafnt er við hverja er rætt þegar fjallað er um læsi og mér hefur fundist að það sé þannig að nánast hver sem er geti tekið sér það dagskrárvald að fjalla um læsi, oft á misgáfulegan hátt,“ segir Auður, „kannski vegna þess að flestallir hafa lært að lesa.“ Hún segir að sér virðist ýmsar mýtur og þrástef vera í umræðunni um læsi barna.
Eitt sé að sveitarstjórnarstigið geri sér ekki alltaf grein fyrir þeirri þekkingu sem lestrarfræðingar búa yfir og því ekki leitað til þeirra og allri ábyrgð varpað á kennara, segir Auður. Hún segir að kennarar þurfi á stuðningi læsisfræðinga að halda, svo sem við skipulag og framkvæmd skimana og prófa, greina niðurstöður og eftirfylgni með aðgerðum í kjölfar mats.
Þegar samsetning kennaranámsins er skoðað sést að sögn Guðbjargar að lítil áhersla er lögð á lestrarkennslu. Yfirleitt eru þeir sem fara í gegnum kennslu á yngri stigum betur í stakk búnir til að kenna lestur heldur en þeir kennaranemar sem fara aðrar leiðir í náminu. Aðeins sé boðið upp á einn lestrarkennsluáfanga á fyrsta ári námsins og síðan ekki söguna meir. Læsi þurfi að fá að þroskast og þróast í takti við auknar áskoranir í námi og leik og því er mikilvægt að allir kennarar fái góðan grunn í læsisfræðum óháð hvaða aldursstigi eða námsgrein þeir hyggist kenna.
„Það er eitt að byrja að læra að lesa en eftir því sem náminu vindur fram í grunnskóla þarftu að búa yfir aukinni færni sem snýr að því hvernig þú nálgast texta, lesskilningsaðferðir og ritun,“ segir Guðbjörg. Nemendur fá grunnfærni en það vanti upp á eftirfylgni eftir því sem nám þyngist segir hún.
Lesfimikennsla og önnur formleg lestrarkennsla hefur ekki fengið mikið svigrúm í skólum nema þá einna helst á yngsta stigi. Úr þessu þurfi að bæta með markvissri beitingu kennsluaðferða sem efla lesfimi og þurfa kennarar að kunna skil á fjölbreyttum aðferðum til að gera kennsluna merkingarbæra fyrir nemendur og hjálpa þeim í átt að auknum árangri.
Þær segja að nýlega hafi verið sýnd sænsk heimildarmynd sem sýni alvarlegar afleiðingar þess þegar fólk er óritfært. Til að mynda eru dæmi um að lögregluskýrslur haldi ekki fyrir dómi og lyfjum rangt framvísað. Þetta hafi ekki verið rannsakað á Íslandi enda lítið gert af menntarannsóknum hér á landi en fátt sem gefi til kynna að staðan sé önnur hér en í Svíþjóð.
Hæfnin er sú sama hvort sem þú tjáir þig með penna eða lyklaborði. Þetta þarf að vera sjálfvirkt til þess að tjáningin fái að njóta sín segir Guðbjörg. „Þú þarft alltaf að koma frá þér orðunum sama hvernig þú gerir það,“ segir Auður.
Unnið er að gerð matsramma fyrir ritun hjá Menntamálastofnun og taka 90 kennarar þátt í forprófun rammans í vetur. „Við erum að vonast til þess að þetta muni ramma inn hvað ritunarfærni felur í sér þannig að kennarar séu komnir með verkfæri til að styðjast við í kennslu,“ segir Katrín. Hún segir að fjöldi kennara í verkefninu sýni vöntunina á verkfærum fyrir kennara til að styðjast við í kennslunni og að fjöldi kennara, sem vildu aðstoða við forprófunina, hafi farið fram úr björtustu vonum.
Markmið Félags læsisfræðinga er að leiða saman sérfræðinga sem hafa lokið framhaldsnámi í læsisfræðum og að koma á laggirnar samstarfi við aðra fagaðila sem vilja stuðla að bættu læsi á Íslandi.
Að fá starfsheitið læsisfræðingur viðurkennt og gera samfélaginu grein fyrir mikilvægi þess að þekking og reynsla verði markvisst nýtt til að bæta árangur í læsi á Íslandi.
Að miðla starfsþróunartækifærum til félagsmanna og efla faglega umræðu um læsi með því að efla tengsl við innlendar og erlendar stofnanir og félagasamtök sem vinna að bættu læsi.
Stofnfundurinn verður rafrænn og biðja þær Auður, Guðbjörg og Katrín áhugasama læsisfræðinga um að skrá sig á fundinn í gegn um netfangið laesisfraedingar@gmail.com.