Skráðum alvarlegum óvæntum atvikum í íslenskri heilbrigðisþjónustu hefur fjölgað stöðugt síðastliðin ár og voru þau 53 árið 2019 en 45 árið 2018, að því er fram kemur í ársskýrslu embættis landlæknis. Alls voru um tíu þúsund óvænt atvik skráð í íslenskri heilbrigðisþjónustu í fyrra.
Með óvæntu atviki er átt við óhappatilvik, mistök, vanrækslu eða önnur atvik sem valdið hafa sjúklingi tjóni eða hefðu getað valdið sjúklingi tjóni.
Fram kemur í skýrslunni að líklega sé um bætta skráningu á atvikum að ræða vegna vitundarvakningar en ekki raunaukningu á óvæntum alvarlegum atvikum.
Tilgangurinn með skráningu óvæntra atvika er að finna skýringar á þeim og leita leiða til að tryggja að þau endurtaki sig ekki. Algengustu skráð óvænt atvik á heilbrigðisstofnunum á landinu öllu árið 2019 voru byltur/föll, eða alls 5.260 talsins.
Önnur algeng skráð atvik tengdust lyfjameðferð, eða samtals 1.442 talsins á landsvísu.