Páley Borgþórsdóttir, lögreglustjóri á Norðurlandi eystra, lýsir ánægju með þá ákvörðun að lokun hafi verið frestað á meðan skoðað var með yfirveguðum hætti hvaða áhrif hún hefði á löggæsluna og að tillit hafi verið tekið til röksemda embættisins.
Í tilefni af ákvörðun um að loka fangelsinu á Akureyri hefur dómsmálaráðherra kynnt aðgerðir til eflingar almennri löggæslu á Akureyri og nágrenni. Styrking löggæslunnar samkvæmt þeim felst í því að bæta einum manni við útkallsvakt lögreglu allan sólarhringinn, sem nemur fjórum stöðugildum og kostar 62 milljónir króna.
Fangelsið á Akureyri.
Morgunblaðið/Hjálmar S. Brynjólfsson
„Þegar ákvörðun var tekin í sumar var þessi styrking lögreglunnar ekki á borðinu og ekki hafði verið litið til þeirra áhrifa sem lokunin hefði á lögregluna á Norðurlandi eystra. Fjögur stöðugildi eru það sem ríkislögreglustjóri taldi í áliti sínu vera lágmarksstyrkingu.
Áður hefur embættið bent á að til þess að sinna föngum þurfa tveir lögreglumenn að fara inn úr útkallsliði en skammtímavistanir hjá embættinu eru um 300 á ári og er sá fjöldi nokkuð stöðugur á milli ára. Lögreglan hefði því þurft frekari styrkingu.
Þá er mikils virði fyrir rannsóknir embættisins að tryggja eigi fullnægjandi gæsluvarðhaldsúrræði á Akureyri sem fangelsismálastofnun mannar og lýsir embættið yfir ánægju sinni með það,“ skrifar Páley á facebooksíðu lögreglunnar á Norðurlandi eystra.
Þar kemur fram að fjárframlög sem komið hafa til embættisins á síðustu árum vegna fjölgunar ferðamanna, hálendiseftirlits og landamæraeftirlits séu vel nýtt og ekki komin til vegna lokunar fangelsisins heldur af annarri löggæsluþörf.
Fáir lögreglumenn á hvern íbúa
„Í skýrslu ríkisendurskoðunar síðan í febrúar 2020 kemur fram að embætti lögreglustjórans á Norðurlandi eystra hefur hvað fæsta lögreglumenn á bak við hverja þúsund íbúa eða 1,7 á meðan til dæmis lögreglustjórinn á Suðurnesjum hefur 3,9 þrátt fyrir að það sé landfræðilega minna og stutt sé í aðstoð frá öðrum lögregluliðum.
Varðandi fjölgun í sérsveit á Akureyri í tvo menn, þá hefur sá maður þegar hafið störf og ákvörðun ríkislögreglustjóra var ekki tekin í tengslum við ákvörðun um lokun fangelsisins. Þá er bent á að fyrir nokkrum árum voru sérsveitarmenn á Akureyri fjórir,“ segir Páley.