Andlát: Árni Halldórsson

Árni Halldórsson
Árni Halldórsson

Árni Halldórsson skipstjóri og útgerðarmaður á Eskifirði lést í gær, 9. september, á sjúkrahúsinu í Neskaupstað eftir skammvinn veikindi. Árni fæddist á Eskifirði 3. október 1933 og ólst þar upp í stórum systkinahópi, sonur hjónanna Halldórs Árnasonar útgerðarmanns og Solveigar Þorleifsdóttur frá Svínhólum í Lóni.

Árni hóf sjómannsferilinn á unglingsárum en að loknu skipstjórnarnámi 1956 var hann m.a. skipstjóri á Austra SU, Hólmanesi SU, Krossanesi SU og fleiri skipum Hraðfrystihúss Eskifjarðar, sem hann sótti sum hver til skipasmíðastöðva í Noregi og Austur-Þýskalandi.

Hann stofnaði síðar og rak fyrirtækið Friðþjóf hf. ásamt eiginkonu sinni Ragnhildi Kristjánsdóttur og nánum samstarfsmönnum og eiginkonum þeirra. Hann var farsæll skipstjóri á skipum félagsins um áratugaskeið, allt fram á tíunda áratuginn, en þá fór hann til starfa í landi. Félagið rak botnfiskvinnslu á Eskifirði um langt skeið og var umsvifamikið í vinnslu á síldarafurðum.

Árni gegndi ýmsum trúnaðarstörfum í þágu sjómanna og útgerðar og sat um skeið i bæjarstjórn á Eskifirði fyrir Sjálfstæðisflokkinn.

Árni og Ragnhildur eignuðust sex börn;, andvana son 1955, Kristínu Aðalbjörgu, f. 1957, Halldór, f. 1958, Björn, f. 1959, Sigrúnu, f. 1960, og Guðmund, f. 1963, en að auki ólst Auður, dótturdóttir þeirra, að miklu leyti upp hjá afa sínum og ömmu.

Ragnhildur lést í desember 2018. Afkomendur þeirra eru alls 30 talsins.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert