Bæjarstjórn Seltjarnarness samþykkti í gær að endurskoða ákvörðun um að hætta niðurgreiðslu skólamatar í bænum. Mikil óánægja hefur verið meðal foreldra grunnskólabarna í haust.
„Við tókum undir þau sjónarmið sem foreldrafélagið setti fram og það var einhugur um þessa ákvörðun í bæjarstjórn. Það hefði mátt kynna þetta mál betur,“ segir Magnús Örn Guðmundsson, forseti bæjarstjórnar á Seltjarnarnesi.
Á fundi bæjarstjórnar í gær var ákveðið að halda áfram niðurgreiðslu á skólamat grunnskólabarna í bænum. Eins og komið hefur fram í Morgunblaðinu og á mbl.is var framleiðsla og framreiðsla skólamatar á Seltjarnarnesi boðin út í vor og samfara þeim breytingum var ákveðið að hætta niðurgreiðslu í sparnaðarskyni. Sú ákvörðun var ekki kynnt foreldrum sérstaklega og brá því mörgum í brún í haust þegar fyrsti reikningur fyrir þjónustuna barst. Kostaði hver máltíð 655 krónur og nam hækkunin tugum prósenta á milli ára.
„Bæjarstjórn samþykkti á fundi sínum í dag 9. september að breyta verðskrá skólamáltíða grunnskóla þannig að hádegismatur hækkar um liðlega 2,5%. Þannig mun hádegismatur kosta 532 kr. í staðinn fyrir 519 kr. í fyrra. Verðskrá fyrir ávexti verður 99 kr. en var 136 kr. í fyrra,“ segir í frétt á vefsíðu Seltjarnarnesbæjar.
Foreldrafélag Grunnskóla Seltjarnarness sendi bæjarstjórn bréf í lok síðasta mánaðar þar sem farið var fram á að sú ákvörðun að hætta niðurgreiðslu skólamatar yrði endurskoðuð. Jafnframt var samskiptaleysi bæjaryfirvalda harmað.
„Seltjarnarnesbær hefur þegar tekið undir athugasemdir og ábendingar Foreldrafélags grunnskólans um að betur hefði mátt standa að kynningu á breyttu fyrirkomulagi. Að kynna hefði mátt mun fyrr og með skýrari hætti í hverju breytingarnar fælust sem og hvaða áhrif ólík innheimtuaðferð hefðu í för með sér í hverjum mánuði fyrir sig,“ segir á vef bæjarins.
Magnús Örn segir í samtali við mbl.is að mikil ánægja hafi verið með þjónustu Skólamats sem nú sér um matreiðslu fyrir bæjarfélagið og 91% nemenda í grunnskóla bæjarins séu í áskrift að hádegismat. Hagræði felist í því að nú sé greitt fyrir hverja máltíð í staðinn fyrir fast mánaðargjald áður. Hann fellst þó á að betur hefði mátt standa að þeim breytingum sem gengu í garð í skólabyrjun auk þess sem tímasetningin hafi ekki verið heppileg með tilliti til ástandsins í þjóðfélaginu.
„Við erum að taka fullt af erfiðum ákvörðunum þessi misserin varðandi hagræðingu í rekstri. Oft þarf að endurskoða erfiðar ákvarðanir og breyta. Það var það sem við gerðum nú. Staðreyndin er samt sú að þessi aðgerð kostar ellefu milljónir króna og þá peninga þarf auðvitað að finna annars staðar því það er halli á rekstri bæjarins.“