Formaður Flugfreyjufélags Íslands vonast eftir endurráðningum á næstunni en viðurkennir að staðan sé ekki góð. Aðeins 20% flugfreyja í félaginu sem voru við störf í mars fljúga í dag.
„Auðvitað vonumst við eftir því að endurráðningar verði sem fyrst en staðan er ekki góð núna varðandi flugsamgöngur,“ segir Guðlaug Líney Jóhannsdóttir, formaður Flugfreyjufélags Íslands.
Nýjustu fréttir úr flugheiminum hafa ekki verið uppörvandi fyrir flugfreyjur. Í gær kvaðst Þóra Eggertsdóttir, forstöðumaður innanlandsflugs hjá Air Iceland Connect, ekki sjá fram á endurráðningar starfsmanna fyrirtækisins að liðnum uppsagnarfresti þeirra sem sagt var upp í kjölfar veirufaraldursins. Reglulega birtast svo fréttir af því að Icelandair felli niður flug vegna dræmrar eftirspurnar. Þær flugfreyjur sem haldið hafa starfi sínu hjá Icelandair eru í skertu starfshlutfalli fram á næsta ár.
„Við vonumst til að hægt verði að opna fyrir endurráðningar hjá Air Iceland Connect og við bíðum eftir að Ameríka opnist hjá Icelandair. Það myndi væntanlega auka áhafnarþörfina ef hægt verður að fljúga í báðar átti á ný. Við erum bara í þeirri stöðu að bíða og vona,“ segir Guðlaug.
Hún segir aðspurð að ef staða félagsmanna í Flugfreyjufélagi Íslands í dag sé borin saman við stöðuna í byrjun mars á þessu ári sé hún í grófum dráttum þannig að um það bil 20% félagsmanna séu starfandi í faginu. Um 80% hafi misst vinnuna.
„Við höfum nóg að gera við að aðstoða okkar félagsmenn, þar eru næg verkefni. Við erum núna að skoða ýmiss konar fræðslu og fleira fyrir veturinn,“ segir Guðlaug.