Verulega hefur hægt á íbúðafjárfestingu hér á landi samkvæmt nýjum tölum frá Hagstofu Íslands. Íbúðafjárfesting dróst saman um 21% milli ára á öðrum fjórðungi þessa árs sem er mesti samdráttur sem hefur mælst síðan á öðrum fjórðungi ársins 2010.
Þetta kemur fram í Hagsjá Landsbankans. Þar kemur jafnframt fram að þetta er annar ársfjórðungurinn í röð sem samdráttur mælist, en á fyrsta ársfjórðungi dróst íbúðafjárfesting saman um 5%.
Þrátt fyrir þetta er uppbygging enn þá mikil og má áfram gera ráð fyrir fjölgun íbúða inn á markaðinn næstu misseri þar sem tíma tekur að klára mörg þeirra verkefna sem þegar voru hafin.
Alls var fjárfest fyrir ríflega 35 milljarða króna á öðrum fjórðungi þessa árs. Ef frá er talið tímabilið frá fyrsta ársfjórðungi 2019 til fyrsta ársfjórðungs 2020 er þetta mesta fjárfesting sem hefur átt sér stað á stökum ársfjórðungi síðan 2008.