Hringdi 122 sinnum og sendi bréf úr fangelsinu

Fangelsið á Hólmsheiði.
Fangelsið á Hólmsheiði.

Kamilla Ívars­dótt­ir, 18 ára stúlka sem varð fyr­ir stór­felldri lík­ams­árás af hálfu fyrr­ver­andi kær­asta síns á síðasta ári, hef­ur kært hann fyr­ir grófa lík­ams­árás gegn sér skömmu eft­ir að hann losnaði úr fang­elsi. Þá sæt­ir maður­inn ákæru fyr­ir ít­rekuð brot gegn nálg­un­ar­banni, en hann hringdi 122 sinn­um í Kamillu úr fang­els­inu á Hólms­heiði, að því er greint er frá á RÚV.

Maður­inn var í mars á þessu ári dæmd­ur í 12 mánaða fang­elsi fyr­ir gróft of­beldi og hót­an­ir, en í nóv­em­ber á síðasta ári réðst hann á þáver­andi kær­ustu sína, Kamillu, sem þá var 17 ára göm­ul, við höfn­ina í Reykja­vík. Árás­in var hrotta­leg og rann­sakaði lög­regl­an málið upp­haf­lega sem til­raun til mann­dráps.

Nú hef­ur lög­regl­an ákært mann­inn fyr­ir ít­rekuð brot gegn nálg­un­ar­banni og var ákær­an þing­fest fyr­ir dómi í dag, en auk þess sem hann hringdi sam­tals 122 sinn­um í Kamillu úr fang­els­iss­ím­an­um á Hólms­heiði sendi hann ein­stak­linga út úr fang­els­inu með bréf til henn­ar.

„Þetta er bara búið

Þegar dóm­ur var kveðinn upp í mars hafði maður­inn setið í gæslu­v­arðhaldi í fimm mánuði. Tekið var til­lit til ungs ald­urs hans þegar hann braut af sér, og var hon­um því sleppt úr fang­elsi nokkr­um dög­um eft­ir að dóm­ur féll. Tveim­ur mánuðum síðar, í maí, réðst hann aft­ur á Kamillu, líkt og hún hef­ur greint frá á In­sta­gram.

„Hann tek­ur mig upp yfir axl­irn­ar á sér og hend­ir mér í gólfið, þannig að ég skalla gólfið og missti meðvit­und í smá­stund því ég skall svo fast á gólfið. Síðan nær hann mér þannig, ég sný mér svona við og er að skríða upp í rúmið. Og tek­ur mig kyrk­ing­ar­taki þar. Og ég var ekki einu sinni að berj­ast á móti hon­um því ég var bara: Ókei, þetta er bara búið sko. Og svo hélt hann hníf upp við háls­inn á mér og lýsti því fyr­ir mér hvað hann myndi gera ef ég myndi fara frá hon­um. Drepa fjöl­skyld­una mína og mig,“ seg­ir Kamilla í sam­tali við RÚV.

Árás­in hef­ur verið kærð og er nú í rann­sókn hjá lög­regl­unni á höfuðborg­ar­svæðinu. Maður­inn var úr­sk­urðaður í nálg­un­ar­bann til þriðja des­em­ber á grund­velli máls­ins, en sit­ur ekki í gæslu­v­arðhaldi.

Sami maður var einnig hand­tek­inn í sum­ar fyr­ir lík­ams­árás gegn barn­s­móður sinni, að því er fram kem­ur í frétt RÚV, og hef­ur lög­regla hef­ur það mál til rann­sókn­ar. 

Rík­is­sak­sókn­ari áfrýjaði dóm­in­um sem féll í mars til Lands­rétt­ar. Kamilla og fjöl­skylda henn­ar bíða þess nú að málið verði tekið fyr­ir þar.

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert