„Þetta er langt frá því að vera nóg en er þó í rétta átt. Það er grátlegt að segja frá því að þetta er meiri hækkun en ég átti von á eftir samtöl við sláturleyfishafa. Þeir hafa aðeins tekið sig á,“ segir Jóhann Ragnarsson, bóndi í Laxárdal í Hrútafirði og formaður Félags sauðfjárbænda í Strandasýslu.
Allar afurðastöðvar í sauðfjárrækt hafa nú birt gjaldskrá afurðaverðs til bænda. Vegið meðalverð er 499 krónur á kíló lambakjöts sem er 30 krónum hærra en landsmeðaltal á síðasta ári. Hækkunin er 6,4%. Verðið er mismunandi eftir sláturleyfishöfum. Kaupfélag Skagfirðinga og Sláturhús Kaupfélags Vestur-Húnvetninga greiða hæsta verðið, 508 krónur á kíló, eins og sést á meðfylgjandi töflu. Fjallalamb greiðir lægsta verðið, 483 krónur. Þetta er fyrsta verð en sláturleyfishafarnir hafa á undanförnum árum greitt misháar viðbótargreiðslur, eftir því hvernig gengur að selja og hvernig afkoman reynist.
Landssamtök sauðfjárbænda hafa krafist þess að verðið hækkaði í rúmar 700 krónur á tveimur árum, þannig að það verði sambærilegt því verði sem bændur fengu árið 2013. Lögðu samtökin til að verðið yrði 600 krónur í haust. Verðið er enn langt frá þessum óskum, segir í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag.