Veitur hyggjast nú tengja fráveituna, sem liggur undir Pósthússtræti við Tryggvagötu, við brunn sem staðsettur er við austurhorn dreifistöðvarinnar í Pósthússtræti, skammt frá Bæjarins beztu.
Frá þessu er greint í tilkynningu frá Reykjavíkurborg. Segir í henni að gönguleiðir verði greiðar á svæðinu meðan á framkvæmdum stendur. Loka þurfi fyrir bílaumferð frá Pósthússtræti að Tryggvagötu og fyrir aðra akrein fyrir framan Hafnarhúsið, Tryggvagötu 17, nema fyrir vöruflutninga, neyðarbíla og vinnuvélar.
Framkvæmdin hefst 21. september og er fullyrt að hún muni standa yfir í mánuð.
„Veitur vinna að því markvisst að aðgreina skólp og regnvatn í miðborginni og hafa fundið og valið leiðir til að koma regnvatni frá vatnasvæði Tjarnarinnar og Kvosar til sjávar. Við hönnun á nýju skólplögninni á þessu svæði var ekki hægt að tengja hana með góðum hætti til framtíðar nema með því að fara inn í brunn við dreifistöðina við hlið Bæjarins beztu,“ segir í tilkynningunni.
Um þessar mundir standi yfir framkvæmdir við endurnýjun Tryggvagötu.
„Þegar það kom að því að grafa við verkmörk við Tryggvagötu - Pósthússtræti kom í ljós að steinbryggjan sem grafin var upp náði of langt til suðurs. Núverandi lögn var þannig lögð að ómögulegt var að ná tengingu við hana Tryggvagötu megin við vegginn og þar að auki hefði hún lent í árekstri við nýju regnvatnslögnina.“
Þar með hafi orðið óhjákvæmilegt að fara í þessa aðgerð núna.
„Einnig er nauðsynlegt að taka tillit til neðanjarðarveggjarins og fornleifa handan við hann og hanna lagnirnar í gegnum hann í fullu samráði við Minjastofnun. Þessi aðgerð er mikið þarfaþing en hún var á fimm ára áætlun Veitna. Það hentar sérlega vel að ráðast í hana núna og ætti hún að ganga greiðlega fyrir sig.“
Um framkvæmdina á vef borgarinnar
Um framkvæmdina á vef Veitna