Rekandi gistiheimilis á Suðurlandi segist upplifa að margir ferðamenn reyni að komast hjá sóttvarnareglum og að þeir sem þó reyni að fylgja þeim freistist til að gera slíkt hið sama vegna skorts á upplýsingum. Þá hafi hún verið með gesti sem hafi ekki fengið tíma í síðari skimun á tilsettum degi og því þurft að vera sólarhring lengur í sóttkví en ráðgert var.
Bergþóra Reynisdóttir, sem rekur gistiheimilið kveðst upplifa að ringulreið og falskt öryggi fylgi hertum reglum með tvöfaldri sýnatöku, en sjálf hefur hún neitað að taka á móti ferðamönnum sem hún telur vera að brjóta reglur um sóttkví og lent í aðkasti fyrir og jafnvel verið áreitt í gegnum Booking.com.
„Um daginn voru Þjóðverjar sem ætluðu að koma til mín og höfðu farið í seinni skimun á þriðjudag og ætlað að koma til mín á þriðjudagskvöldið, áður en þeir voru búnir að fá niðurstöðu, því þeir fengu ekki niðurstöðu fyrr en deginum eftir, en ég skil reglurnar þannig að þeir þurfi að vera búnir að fá niðurstöður úr seinni skimun áður en þeir heimsækja næsta gististað. Síðan var eitt dæmi síðan í dag þegar kona sendi póst á mig og vildi að ég hýsti fimm manna fjölskyldu í einn sólarhring því þau væru að fara til Hafnar í Hornafirði til að vera í sóttkví. Ég bara hafnaði þessu fólki, ég neitaði að hýsa það ef það skyldi vera smitað.“
„Reglur eiga að vera til að fylgja þeim, en það er ekki verið að fylgja þeim, hvorki af Íslendingum né erlendum gestum sem hafa líka verið að brjóta þær,“ segir Bergþóra og segist í tvígang hafa haft samband við lögregluna á Suðurlandi vegna ferðamanna sem hún taldi vera að brjóta sóttkví og beðið hana að vera meira sýnilega.
Loks segir hún kerfið ekki virka þegar heilsugæslan geti ekki tekið á móti ferðamönnum í skimun á tilsettum degi. „Ef það er verið að seinka því um sólarhring hættir þeim við að vilja brjóta reglurnar. Þeir vilja komast af sóttkvíarstaðnum, þannig að ef heilsugæslan er ekki að ráða við þetta þá er þetta ekki að virka. Þeir verða að taka við ferðamönnum eftir 96 klukkustundir en ekki seinka um sólarhring því þá munar um hvern dag.“