Ásmundur Einar Daðason, félags- og barnamálaráðherra, opnaði í dag formlega nýjan vef um hlutdeildarlán. Stjórnvöld fullyrða að þetta nýja úrræði eigi að auðvelda eigi tekju- og eignaminni einstaklingum að festa kaup á fasteign.
Í tilkynningu frá Húsnæðis- og mannvirkjastofnun er haft eftir ráðherra að fólk eigi ekki að þurfa að „stóla á mömmu og pabba eða ömmu og afa“ til að komast inn á fasteignamarkaðinn.
Hægt verði að sækja um lán í gegnum vefinn www.hlutdeildarlan.is frá og með 1. nóvember. Þar sé einnig að finna allar helstu upplýsingar. Húsnæðis- og mannvirkjastofnun muni sjá um að meta umsóknir og veita lánin.
„Hlutdeildarlánin eru róttæk aðgerð þar sem við erum að grípa inn í og rétta hlut tekjulágra einstaklinga á húsnæðismarkaðnum og jafna aðgengi fólks að honum, án þess að það þurfi að stóla á mömmu og pabba eða ömmu og afa til þess að eiga möguleika á að eignast fasteign. Það er mikið gleðiefni að þessi glæsilegi vefur sé nú kominn í loftið og hér finnur fólk allar helstu upplýsingar um ferlið,“ er enn fremur haft eftir félags- og barnamálaráðherranum við þetta tilefni.
Lög um þessi lán voru samþykkt á Alþingi 3. september og eru sögð liður í aðgerðum ríkisstjórnarinnar til stuðnings lífskjarasamningunum sem undirritaðir voru í fyrra.
Lánunum sé ætlað að hjálpa fyrstu kaupendum undir ákveðnum tekjumörkum að brúa bilið við fasteignakaup. Veitt sé 20% hlutdeildarlán á móti 5% eigin fé lántaka og 75% láni frá lánastofnun. Lágtekjuhópar geti fengið allt að 30% hlutdeildarlán.
„Engir vextir eða afborganir eru af hlutdeildarláni en lántaki endurgreiðir lánið þegar hann selur eignina eða við lok lánstíma. Hlutdeildarlánið er veitt til 10 ára en heimilt er að framlengja lánstímann um fimm ár í senn, mest til 25 ára alls. Hlutdeildarlánið fylgir verðbreytingu eignarinnar og hækkar því eða lækkar í samræmi við það og miðast endurgreiðslufjárhæðin við sama hlutfall af verðmæti fasteignar og hlutdeildarlánið nam,“ segir í tilkynningunni.