„Svona lögbrot, þau verða kærð“

„Svona lögbrot, þau verða kærð,“ segir Sigurborg Ósk Haraldsdóttir, formaður skipulags- og samgönguráðs Reykjavíkurborgar, um niðurrif hússins sem stóð við Skólavörðustíg 36. Hún segir mikla eftirsjá að húsinu sem var friðað vegna hverfisverndar.

Í myndskeiðinu er rætt við Sigurborgu við Skólavörðustíg þar sem verið var að hreinsa upp rústir gamla hússins í morgun.

Verslun Þorsteins Bergmanns var lengi til húsa við Skólavörðustíg 36 …
Verslun Þorsteins Bergmanns var lengi til húsa við Skólavörðustíg 36 en húsið var byggt fyrir tæpum hundrað árum síðan. Nú stefnir í dómsmál vegna niðurrifsins. Ljósmynd/Google.

Birgir Örn Arnarson, eigandi hússins, segir í samtali við RÚV að um óhapp hafi verið að ræða. Í samtali við Morgunblaðið í gær vegna fréttar sem birtist á forsíðu blaðsins í dag, var þó haft eftir honum að húsið hefði verið rifið með vitund frá fulltrúum borgarinnar. Hann hafi verið búinn að tilkynna starfsmönnum á vegum borgarinnar að um leið og að farið yrði í framkvæmdir við að hækka húsið um eina hæð væri ljóst að það myndi ekki þola raskið þar sem að burðarvirki hússins hefði verið laskað. 

Sambærilegt mál kom upp fyrir ekki svo löngu síðan þegar verið var að byggja Exeter-hótelið við Tryggvagötu. Sigurborg segir að það bíði nú upptöku Héraðsdóms Reykjavíkur og hefði átt að vera eiganda víti til varnaðar. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert