Efast um óhlutdrægni nýrrar siðanefndar

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri á úr vöndu að ráða.
Stefán Eiríksson útvarpsstjóri á úr vöndu að ráða.

Lögmaður Samherja hefur skrifað útvarpsstjóra bréf, þar sem furðu er lýst á málsmeðferð á kæru félagsins á hendur ellefu starfsmönnum Ríkisútvarpsins (Rúv.) til siðanefndar stofnunarinnar vegna framgöngu þeirra á félagsmiðlum.

Er þar fundið að því að siðanefnd skuli ekki hafa verið að störfum síðan í fyrra, þrátt fyrir skýr fyrirmæli siðareglna um það, og þó ekki síður að nú standi til að skipa nýja siðanefnd til þess að fjalla um þessa kæru, sem veki ríkar efasemdir um óhlutdrægni hennar.

Arnar Þór Stefánsson hrl. ritar bréfið fyrir hönd Samherja til Stefáns Eiríkssonar útvarpsstjóra og gerir að umtalsefni orð, sem höfð voru eftir honum í fjölmiðlum, um að ekki hefði verið endurskipað í siðanefndina þar sem siðareglur hefðu verið til endurskoðunar síðan í fyrra, en að úr því yrði bætt í ljósi framkominnar kæru Samherja.

Lögmaðurinn bendir á að endurskoðun siðareglna komi ekki í veg fyrir að farið sé eftir þeim reglum, sem í gildi séu, þar á meðal hvað varðar skipun siðanefndar, sem hefði átt að eiga sér stað árið 2019.

Þá mæli siðareglurnar fyrir um að tveir nefndarmenn af þremur skuli „skipaðir af aðilum nátengdum Ríkisútvarpinu,“ en útvarpsstjóri skipar sjálfur formann hennar og starfsmannafélag Rúv. annan hinna. Þannig verði meirihluti siðanefndar skipaður af yfirmanni hinna kærðu og hagsmunagæslusamtaka hinna kærðu.

Þessa málsmeðferð alla telur Samherji „til þess fallna að draga megi óhlutdrægni siðanefndar í efa og að óeðlilegt sé að kærandi þurfi að sæta slíku“. Er talið nærtækara að nefndin yrði skipuð þeim nefndarmönnum, sem hana skipuðu til ársins 2019.

Siðareglur í uppnámi

Ljóst er að Stefáni Eiríkssyni útvarpsstjóra er nokkur vandi á höndum. Þarna hefur augljóslega orðið misbrestur í stjórnsýslu Rúv. og erfitt úr að bæta svo óhlutdrægni og vandaðrar málsmeðferðar sé gætt. Og lítið réttlæti að kærandi beri hallann af því.

Við bætist að þar er um að ræða vanda sem segja má að Stefán hafi fengið í arf, því hann kom ekki til starfa fyrr en 1. mars síðastliðið vor, en það var í útvarpsstjóratíð Magnúsar Geirs Þórðarsonar, sem endurskoðunin hófst, og það var hann sem lét undir höfuð leggjast að skipa nýja nefnd, enda mögulega kominn með hugann á nýjan stað.

Ekki hefur fengist upplýst hvers vegna ráðast þurfti í endurskoðun siðareglnanna, sem þá voru aðeins um þriggja ára gamlar. Nefnt hefur verið að ekki sé í þeim tiltekinn neinn fyrningartími, þ.e.a.s. hversu langt megi líða frá birtingu til kæru; eins sé óljóst til hvaða starfsmanna siðareglurnar nái, fréttamenn, dagskrárfólk og yfirmenn séu þar ljóslega á meðal, en ekki hvort þær nái líka t.d. til tæknifólks eða auglýsingasala. Þá sé óvíst hvernig þær tengist öðrum reglum Rúv. um kærur og kæruleiðir.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert