Páll Matthíasson, forstjóri Landspítalans, segir að talsverð vinna sé framundan á spítalanum í kjölfar niðurstöðu gerðardóms sem var skipaður í kjaradeilu Félags íslenskra hjúkrunarfræðinga og ríkisins. „Ég hef sagt það áður og segi það enn – fátt er jafn óheppilegt og kjaradeilur inn í viðkvæma starfsemi Landspítala.“
Niðurstaða gerðardómsins var kynnt 1. september, en hann úrskurðaði að ríkið skyldi leggja Landspítalanum til aukna fjármuni sem ráðstafa á til að bæta kjör hjúkrunarfræðinga á grundvelli stofnanasamnings, alls 900 milljónir króna á ári frá september þessa árs til loka gildistíma kjarasamnings aðila.
„Niðurstaðan kallar á talsverða vinnu hér á Landspítala og höfum við unnið að útfærslunni í samvinnu við Fíh. Það er von mín að unnt verði að kynna niðurstöðu hið fyrsta og að langri kjaradeilu hjúkrunarfræðinga við viðsemjanda sinn ljúki þar með. Ég hef sagt það áður og segi það enn – fátt er jafn óheppilegt og kjaradeilur inn í viðkvæma starfsemi Landspítala,“ skrifar Páll í pistli sem birtur hefur verið á vef Landspítalans.