Leigusamningum um íbúðarhúsnæði á höfuðborgarsvæðinu hefur fjölgað mikið í sumar samanborið við seinasta ár.
Í júlí var þinglýst 596 leigusamningum og í ágúst voru þeir 578 samkvæmt tölum sem Þjóðskrá Íslands hefur birt yfir fjölda þinglýstra leigusamninga. Í ágústmánuði í fyrra var fjöldi leigusamninga 443 á höfuðborgarsvæðinu og er aukningin milli ára því 30,5%.
Töluverðar breytingar urðu einnig í öðrum landshlutum í leigu íbúðarhúsnæðis í sumar, ýmist til hækkunar eða lækkunar frá því í fyrra, en í sumum tilvikum er þó um mjög fáa leigusamninga að ræða. „Heildarfjöldi samninga á landinu var 844 í ágúst 2020 og fækkar þeim um 1,9% frá júlí 2020 en fjölgar um 22,7% frá ágúst 2019,“ segir í frétt Þjóðskrár.
Hagdeild Húsnæðis- og mannvirkjastofnunar birti í gær mánaðarskýrslu um stöðuna á húsnæðismarkaði. Þar kemur m.a. fram að leiguverð hefur nánast staðið í stað á höfuðborgarsvæðinu í sumar en ef litið er yfir eins árs tímabil hefur leiguverðið lækkað að raungildi um 2% á milli ára. Á öðrum landsvæðum mælast lækkanir á milli mánaðanna júní og júlí. Mest á Austurlandi og Vestfjörðum.