Kolbrún Sævarsdóttir héraðsdómari lést á líknardeild Landspítalans 9. september sl., 56 ára að aldri.
Kolbrún fæddist á Selfossi 7. ágúst 1964. Foreldrar hennar voru Jónína Auðunsdóttir, f. 1945, d. 1997, og Sævar Norbert Larsen, f. 1946, d. 2000. Hálfsystkini Kolbrúnar móðurmegin eru Stefán og Eva Guðrún Gunnbjörnsbörn og föðurmegin Steinunn Margrét, Jóhannes Arnar, Friðrik Rafn og Linda Rut Larsen.
Kolbrún ólst upp á Selfossi til átta ára aldurs en árið 1972 flutti fjölskyldan til Reykjavíkur. Kolbrún lauk stúdentsprófi frá Fjölbrautaskólanum í Breiðholti 1984. Á menntaskólaárunum æfði hún frjálsar íþróttir með ÍR og eignaðist þar vinkonur sem hafa haldið hópinn síðan. Eftir stúdentspróf fór Kolbrún í ársskiptinám til Bandaríkjanna en hóf nám við lagadeild Háskóla Íslands haustið 1985 og lauk cand. jur prófi vorið 1990.
Eftir laganám vann Kolbrún hjá borgarfógeta í tvö ár. Þá réð hún sig til nýstofnaðs Héraðsdóms Reykjavíkur sem fulltrúi en árið 1993 opnaði hún lögmannsstofu. Kolbrún ákvað síðan að fara í framhaldsnám og haustið 1995 skráði hún sig í nám við Háskóla Íslands og hélt í skiptinám til Kaupmannahafnar. Kolbrún flutti heim frá Kaupmannahöfn vorið 1997. Tók hún þá til starfa hjá fíkniefnadeild lögreglunnar í Reykjavík og var þar fram í ársbyrjun árið 2000 er hún hóf störf sem fulltrúi hjá ríkissaksóknara. Kolbrún tók námsleyfi haustið 2000 og nam alþjóðleg mannréttindi við Háskólann í Lundi. Hún var skipuð saksóknari árið 2005.
Árið 2010 var Kolbrún settur héraðsdómari við Héraðsdóm Reykjavíkur og þann 1. mars 2012 var hún skipuð í embættið. Á starfsferli sínum sinnti Kolbrún ýmsum trúnaðarstörfum og kenndi við háskóla. Hún tók sæti sem varadómari í Hæstarétti árið 2017.
Sumarið 2012 greindist Kolbrún með brjóstakrabbamein. Meðferðin gekk vel og leit út fyrir að hún hefði unnið bug á meininu. Í desember 2015 greindist hún á ný, og ljóst að krabbameinið var þá búið að dreifa sér. Við tók hörð barátta sem Kolbrún tókst á við af æðruleysi og hugrekki til síðasta dags.