Augljóst að myndin hefur sært marga

Auglýsingin sýnir Jesú með skegg, brjóst og andlitsfarða.
Auglýsingin sýnir Jesú með skegg, brjóst og andlitsfarða. Teikning/Þjóðkirkjan

„Ástæðan fyrir því að þetta er gefið út er umræðan sem hefur átt sér stað, og það er augljóst að það er mikið af fólki sem er sært,“ segir Guðrún Karls- og Helgudóttir, sóknarprestur í Grafarvogskirkju og fulltrúi á kirkjuþingi þjóðkirkjunnar, í samtali við mbl.is.

Í kvöld gaf kirkjuþing frá sér yfirlýsingu þess efnis að þinginu þætti miður að Jesúmynd í auglýsingu um sunnudagaskóla kirkjunnar hefði sært fólk.

„Ætlunin var sú að undirstrika fjölbreytileikann en hvorki að særa né ofbjóða,“ segir í yfirlýsingunni.

Guðrún segir að borist hafi mikið af jákvæðum viðbrögðum vegna auglýsingarinnar, en þingfulltrúum hafi þótt mikilvægt að láta í ljós að þeim þætti það miður að fólki hefði sárnað.

„Kirkjan vill ekki særa neinn,“ segir Guðrún.

Fram hefur komið að á næstunni muni kirkjan kynna fleiri kristsgervinga til sögunnar, og segir Guðrún að ekki verði farið fram á að sú ákvörðun verði endurskoðuð.

Sr. Guðrún Karls- og Helgudóttir.
Sr. Guðrún Karls- og Helgudóttir. Ljósmynd/Grafarvogskirkja

Ekki formlega rætt á þinginu

„Mér skilst að það sé ekki von á neinu í þessa átt. Ég held að það verði fleiri Jesúmyndir birtar í auglýsingum á vegum kirkjunnar á netinu, en ég held að það sé ekki í líkingu við þetta. Ég held að það sé allt mun hefðbundnara,“ segir Guðrún.

Málið var, að sögn Guðrúnar, ekki formlega rætt á þinginu, en rík umræða hafi farið á flug innan kirkjunnar í kjölfar myndbirtingarinnar.

„Hver og einn les eitthvað úr þessari mynd. Einhverjir lesa trans-Jesú, aðrir sjá konu. Einhverjir sjá Maríu með skegg og aðrir sjá kynsegin manneskju. Skoðanir innan kirkjunnar eru jafn skiptar og annars staðar,“ segir Guðrún.

„Það er ekki markmið kirkjunnar að ögra á þann hátt að það særi fólk, og það er það sem kirkjuþing vill koma á framfæri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka