Auglýsing þjóðkirkjunnar sem auglýsir sunnudagaskóla kirkjunnar hefur verið fjarlægð af facebooksíðu kirkjunnar og vefsíðu hennar. Auglýsingin hefur vakið mikil viðbrögð undanfarið en í henni birtist Jesús með brjóst og andlitsfarða.
Kirkjuþing 2020 stendur nú yfir og hefur samskiptastjóri þjóðkirkjunnar áður sagt að líklega verði auglýsing rædd á þinginu þótt hún sé ekki hluti formlegrar þingdagskrár.
Í samtali við mbl.is sagði Pétur Georg Markan, samskiptastjóri þjóðkirkjunnar, nýverið að kirkjan teldi jákvætt og eðlilegt að Kristur birtist fólki í öllum mögulegum myndum. Þannig fagnaði kirkjan fjölbreytileika mannfólks.
Hins vegar virðist eitthvað hafa breyst í þessu viðhorfi kirkjunnar þar sem auglýsingin hefur verið fjarlægð af facebooksíðu kirkjunnar og vefsíðu.
Pétur Markan sagði hins vegar að kirkjan skildi vel þau sjónarmið fólks að kirkjunni beri að gæta sín þegar kemur að kristsgervingum. „Við vitum þó að ekki eru allir sammála um að Kristur eigi að birtast svona og við berum auðvitað virðingu fyrir því.“
Pétur sagði einnig við mbl.is í vikunni að fyrirhugað væri að birta fleiri kristsgervinga í auglýsingarherferð kirkjunnar fyrir sunnudagaskólann. Myndirnar sem nota á í herferðinni teiknaði Lára Garðarsdóttir og segir Pétur að hún hafi teiknað margar fallegar myndir sem nota eigi í herferð kirkjunnar.
„Við munum á næstunni kynna fleiri kristsgervinga þar sem til að mynda má sjá Jesú taka til hendinni í umhverfismálum,“ sagði Pétur við mbl.is.
Ekki náðist í Pétur Markan, samskiptastjóra þjóðkirkjunnar, við gerð fréttarinnar.