Ljósmyndasýningin World Press Photo var opnuð í gær í Kringlunni og gátu gestir og gangandi þar virt fyrir sér þær fréttaljósmyndir ársins 2019 sem unnu til verðlauna World Press Photo-samtakanna. Kringlan stendur fyrir sýningunni í samstarfi við Morgunblaðið.
Lilja Alfreðsdóttir, mennta- og menningarmálaráðherra, opnaði sýninguna formlega auk þess sem Kristinn Magnússon, formaður Blaðaljósmyndarafélags Íslands, hélt stutt erindi.
Alls tóku 4.282 atvinnuljósmyndarar frá 125 löndum þátt í World Press Photo-samkeppninni í ár og voru 73.996 ljósmyndir sendar inn.
Ljósmyndin sem dómnefnd útnefndi sem fréttaljósmynd ársins var tekin af japanska ljósmyndaranum Yasuyoshi Chiba fyrir Agence France – Presse. Myndin sýnir ungan mann, sem er lýstur upp af farsímum, flytja mótmælaljóð meðan mótmælendur kyrja slagorð og krefjast borgaralegrar stjórnar þegar slökkt var á ljósum í Khartoum í Súdan 19. júní 2019.
Dómnefndin veitti alls 44 ljósmyndurum verðlaun í 8 efnisflokkum og koma verðlaunahafar frá 24 löndum.