Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra sagði á Sprengisandi í dag, að skoða þurfi hvers vegna tíminn sem tekið hefur að fá úrlausn í máli hælisleitenda frá Egyptalandi hafi lengst svo sem raun ber vitni. Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, sagði brýnt að skýrar reglur gildi um málaflokkinn. Ekki væri hægt að byggja stefnuna á því hvort fólk kæmist í fjölmiðla eða ekki.
Katrín sagði ljóst að Íslendingar taki ekki á móti öllum sem hingað koma og benti á að aldrei hefði verið tekið á móti fleiri hælisleitendum en í fyrra. Hins vegar hefðum við fengið hlutfallslega fleiri umsóknir en önnur Norðurlönd af einhverjum orsökum. „Við höfum verið að stytta málsmeðferðartímann, en við erum samt með þetta fólk hér í of langan tíma sem er ómannúðlegt,“ sagði Katrín. Því þyrfti að skoða, þó að málsmeðferðartíminn væri innan marka, hvers vegna úrlausnin hefði dregist svo mjög.
Sigmundur Davíð sagði aðalatriðið vera að það væri ekki hægt að byggja stefnu í þessum málum á því hvort fólk kæmist í fjölmiðla eða ekki. „Þannig hefur þetta verið rekið á Íslandi, að reynt er að fylgja reglum, en ef fólk nær athygli fjölmiðla, þá gilda aðrar reglur.“
Sigmundur sagði brýnt að hafa skýrar reglur, framfylgja þeim og gera það hratt. „Ég er sammála Katrínu með að eitt það mikilvægasta er að láta þetta ganga hraðar fyrir sig og óskiljanlegt hvað þetta hefur tekið langan tíma, en sá tími hefur lengst, meðal annars vegna þess hvað straumurinn hefur aukist til Íslands.“ Sagði Sigmundur Davíð það vera afleiðingu af þeim skilaboðum sem Ísland hefði sent.
Kristján Kristjánsson, þáttastjórnandi Sprengisands, spurði þá hver ætti að bera hallann af því, og vísaði til barnanna. Sigmundur Davíð svaraði því til að það eru börn um allan heim sem búa við hræðilegar aðstæður, en ef menn hafi fengið hæli á öðrum stað, þá þyrfti að fylgja Dyflinnarreglugerðinni, því að öðrum kosti myndi aukningin halda áfram þar til við réðum ekki við hana.
„Við verðum að nálgast þennan málaflokk þannig að við getum hjálpað sem flestum sem mest, og þá sérstaklega því fólki sem er í mestri neyð. Og það gerum við ekki hvað síst með alþjóðasamstarfi og með því að útskýra fyrir umheiminum að við tökum við flóttamönnum sem fara rétta leið og sækja um hæli hér, í stað þess eins og þróunin er núna að missa stjórn á þessu, sem bitnar á öllum, þar með talið börnum,“ sagði Sigmundur Davíð.
Katrín sagði að þetta hefði verið flókið, en unnið væri á grundvelli laga frá 2016, en að auki þyrftu stjórnvöld að fylgja barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna. „Þess vegna segi ég að það er ekki boðlegt fyrir fólk sem er búið að fá úrlausn sinna mála í þessu kerfi okkar, að þá líði og bíði.“