10 grindhvali rak á land

Vegfarendur sem áttu leið um Álftafjörð á Snæfellsnesi í gær kom að hópi grindhvala sem hafði rekið á land. Að sögn sjónarvotta voru dýrin 10 talsins og var lífsmark með þremur þeirra þegar fólkið bar að. Reynt var að vökva dýrin og gera þeim lífið bærilegra án árangurs. 

Í myndskeiðinu sem Darja Lane sendi mbl.is má sjá dýrin berjast fyrir lífi sínu í fjöruborðinu en greinilegt er að mikið hefði þurft til að ná að koma þeim til bjargar. Hegðunin er vel þekkt hjá grindhvölum og í fyrra varð einn stærsti hvalreki í landsins í langan tíma þegar tugi grindhvala rak á land við Löngufjörur á Snæfellsnesi. 

Darja segir í samtali við mbl.is að hún hafi gert lögreglu viðvart en að ekki hafi neinn komið á staðinn á meðan hún var þar. Ekki náðist í lögregluna á Vesturlandi við vinnslu fréttarinnar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert