Ásgeir Ingvarsson
Bankastjóri Íslandsbanka segir áætlanir Icelandair Group trúverðugar og varfærnar og tekur stjórnandi Landsbankans í sama streng. Greina má þó nokkra spennu í aðdraganda hlutafjárútboðs flugfélagsins á miðvikudag og skiptar skoðanir í samfélaginu um rekstrarhorfurnar.
Að sögn Birnu Einarsdóttur er mikilvægt fyrir atvinnulífið í landinu að flugfélagið nái góðri viðspyrnu með hlutafjárútboðinu og Lilja Björk Einarsdóttir segir brýnt að glutra ekki niður þeirri áratugalöngu uppbyggingu sem hefur átt sér stað innan Icelandair.
Báðir bankarnir eiga mikið undir því að hlutafjárútboðið heppnist vel. Þeir hafa lánað Icelandair háar fjárhæðir og tóku þátt í 16,5 milljarða króna lánalínu flugfélagsins sem veitt var með 90% ríkisábyrgð. Þá deila Landsbankinn og Íslandsbanki allt að 6 milljarða króna sölutryggingu sem virkjast ef áskriftir fjárfesta í útboðinu ná að lágmarki 14 milljörðum króna. Bankastjórarnir segja áhættuna ásættanlega og bankana í góðri stöðu um þessar mundir.
Benedikt Gíslason, bankastjóri Arion banka, segir það jákvæða nýbreytni að þeir sem kaupa hlutabréf í útboðinu fái áskriftarréttindi að fleiri hlutum.
Í blaði dagsins birtist bréf frá forstjóra, fjármálastjóra og mannauðsstjóra Icelandair þar sem þau segja að ef hlutafjárútboðið gangi vel verði félagið tilbúið að gegna lykilhlutverki í efnahagslegum viðsnúningi í landinu þegar eftirspurn ferðamanna taki við sér, að því er fram kemur í Morgunblaðinu í dag.