„Þetta er nokkuð augljóst í mínum huga, þau eru í verslunarrekstri og með aukinni umferð hefðu komið fleiri gestir og skapað meiri viðskipti, enda studdu þau R-leiðina,“ segir Ingimar Ingimarsson, varaoddviti Reykhólahrepps.
Hann ræðir um ástæður þess að eigendur einu verslunarinnar á Reykhólum, Hólabúðarinnar, hafa ákveðið að loka verslun og veitingastað.
Fram kom í viðtali við eigendur verslunarinnar á mbl.is að reksturinn hafi verið erfiður vegna fólksfækkunar og einnig hafi kórónuveirufaraldurinn og fáir erlendir ferðamenn í sumar spilað inn í ákvörðunina.
Ingimar var oddviti hreppsnefndar og barðist fyrir því að nýr Vestfjarðavegur færi eftir svokallaðri R-leið, yfir utanverðan Þorskafjörð og um þorpið á Reykhólum. Taldi að það yrði jákvætt fyrir byggðina. Vegagerðin taldi svokallaða Teigsskógarleið betri og að lokum féllst meirihluti sveitarstjórnar á leiðaval Vegagerðarinnar og Ingimar sagði af sér sem oddviti. Vegamálin eru enn í óvissu því útgáfa hreppsins á framkvæmdaleyfi var kærð til úrskurðarnefndar umhverfis- og auðlindamála.