Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir dómsmálaráðherra telur þurfa skýrari refsiákvæði um háttsemi sem gæti flokkast sem umsáturseinelti. Hún mun leggja fram frumvarp um breytingar á hegningarlögum þegar þing kemur næst saman.
Umsáturseinelti er skilgreint sem háttsemi, sem í sjálfu sér er ekki refsiverð, en getur orðið það ef hún er síendurtekin og til þess fallin að valda kvíða og vanlíðan hjá þeim sem fyrir henni verða.
Ráðherra telur núgildandi lög um nálgunarbann ekki vernda þolendur nægilega vel gagnvart háttsemi sem ekki felur í sér hótanir eða ofbeldi. Þannig verði refsivert að elta, fylgjast með, setja sig í samband við eða með öðrum sambærilegum hætti sitja um aðra manneskju með þeim afleiðingum að valda henni kvíða og vanlíðan. Svipuð lög eru til staðar í Finnlandi, Noregi og Svíþjóð og var horft til laga sem þar gilda við gerð frumvarpsins.
Í samtali í Morgunblaðinu í dag segir Áslaug að bæði hafi lögreglan og Kvennaathvarfið kallað eftir því að lögum verði breytt til þess að tryggja vernd fyrir háttsemi sem flokkast geti sem umsáturseinelti.