Söngvari Sigur Rósar krefst frávísunar

Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar, (lengst til vinstri) á …
Jón Þór Birg­is­son, söngv­ari Sig­ur Rós­ar, (lengst til vinstri) á leið í Héraðsdóm Reykja­vík­ur á síðasta ári. mbl.is/Eggert

Jón Þór Birgisson, söngvari hljómsveitarinnar Sigur Rósar, hefur krafist þess að vísað verði frá ákæru héraðssaksóknara gegn honum vegna meintra 146 milljóna króna skattsvika í tengslum við félag hans Frakk.

Saksóknari og lögmaður Jóns Þórs, eða Jónsa, tókust á um þessa frávísunarkröfu í Héraðsdómi Reykjavíkur í morgun, að sögn RÚV.

Jón Þór og endurskoðandi hans eru ákærðir fyrir skattsvik í tengslum við félagið.

Sagði rannsóknina ólögmæta

Lögmaður söngvarans sagði að rannsókn málsins hefði verið ólögmæt og því gæti hún ekki verið grundvöllur fyrir ákæru. Einnig sagði hann að bráðabirgðaskýrsla sem skattrannsóknarstjóri gaf út vegna málsins væri fordæmalaus og skorti lagalegan grundvöll. Jafnframt hefðu væntingar ákærða um að málinu hefði verið lokið af hálfu skattrannsóknarstjóra í desember 2017 verið réttmætar og bætti við að Jón Þór hefði enga formlega stöðu hjá félaginu og bæri því ekki ábyrgð á skattskilum þess.

Saksóknari hafnaði þessum málsástæðum og krafðist þess að málið fengi efnismeðferð fyrir dómi. Saksóknari sagði að brotin væru umfangsmikil. Annars vegar hefði Frakkur ekki skilað skattframtali og hins vegar röngu framtali. Vantaldar tekjur þess væru um 700 milljónir króna.

Málinu vísað aftur í hérað í febrúar

Í febrúar síðastliðnum ógilti Landsréttur dóm Héraðsdóms Reykjavíkur í máli fjögurra liðsmanna Sigur Rósar en héraðsdómur hafði vísað málinu frá.

Landsréttur taldi að héraðsdómur þyrfti að taka málið til efnislegrar meðferðar og var meðal annars vísað til þess að í máli fjórmenninganna hefðu þeir ekki sætt álagi vegna stórs hluta þeirra tekna sem þeir eru ákærðir fyrir að hafa vantalið.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert