Reykjavíkurborg hefur lagt fram tillögu að matsáætlun vegna mats á umhverfisáhrifum landfyllingar í Nýja Skerjafirði, en þar er áformað að komi 4,3 hektara landfylling og sjóvarnargarður fyrir nýja byggð í Skerjafirði, vestan við Reykjavíkurflugvöll. Matsáætlunin var birt á vef Skipulagsstofnunar í dag.
Miðað er við að fyllingin verði um 4,5 metrar á hæð og er gróflegur kostnaður við hana áætlaður um 224 milljónir og 52 milljónir í sjóvarnargarð. Er áformað að hægt verði að auka byggingarmagn um þrjú þúsund fermetra á svæðinu vegna landfyllingarinnar.
Áður höfðu umhverfis- og skipulagssvið Reykjavíkurborgar og Heilbrigðiseftirlit Reykjavíkur gefið út að æskilegt væri að gert yrði mat á umhverfisáhrifum vegna framkvæmdarinnar. Hægt verður að gera athugasemdir til 29. september.
Tillagan að matsáætluninni er unnin af Eflu, en þar kemur fram að núverandi strönd sé röskuð eftir áratuga starfsemi olíubirðgarstöðvar við flugvöllinn. Ljóst sé að neikvæð áhrif séu á strandlífríki og náttúru.
Á svæðinu sem fyrirhugað er að fylla upp í eru leirur sem njóta sérstakrar verndar samkvæmt lögum um náttúruvernd og þá er þar að finna klóþangsklungur sem hafa mjög hátt verndargildi samkvæmt vistgerðaflokkun Náttúrufræðistofnunar Íslands. Þá megi gera ráð fryrir að fjörulífverur missi búsvæði sín og samhliða því missa fuglar leirurnar sem þeir hafa nýtt sér til fæðuöflunar.
Hægt er að nálgast tillöguna að matsáætluninni í heild sinni á vef Skipulagstofnunar.