Göngur og réttir gengu vel í Grýtubakkahreppi. Sjö til átta þúsund fjár komu í Gljúfurárrétt þar sem réttað var í gær.
„Það er með meira móti enda voraði seint hjá okkur og landið er enn þá að gróa, þannig að féð hefur ekki leitað mikið af afrétti,“ segir Þórarinn Ingi Pétursson, bóndi á Grund í Grýtubakkahreppi. Hann var í gær ásamt sínu fólki að reka féð heim. Það voru lokin á smalamennsku á afréttum hreppsins sem hófust á miðvikudag.
Helgin var ein stærsta réttahelgi haustsins. Dregið var í dilka í mörgum fjármörgum réttum um allt land. Réttir voru lokaðar gestum vegna krafna yfirvalda um sóttvarnir. Eingöngu þeir sem höfðu hlutverki að gegna fengu að mæta og hámarkið var 200 manns.
„Þau drógu eins og brjálæðingar allan tímann og það tók ekki nema 3 eða 4 tíma að draga í sundur,“ segir Þórarinn um störfin í Gljúfurárrétt í Morgunblaðinu í dag. Aðeins tafði fyrir að almenningurinn sprakk einu sinni, en það bjargaðist. Þórarni sýnist að lömb komi ágætlega væn af fjalli. Jafnari en oft áður.