Á fimmta þúsund bíla úr umferð

Bílalager í Sundahöfn.
Bílalager í Sundahöfn. mbl.is/Árni Sæberg

Tæplega 4.400 bílaleigubílar hafa verið teknir úr umferð það sem af er ári. Alls hafa um níu þúsund bílar verið teknir úr flotum bílaleiga, en samkvæmt tölum Hagstofunnar hefur um helmingur þeirra verið seldur en hinn helmingurinn mun vera án númera.

Fyrstu sjö mánuði ársins seldust 5.673 nýir fólksbílar, eða um þriðjungi færri en á sama tímabili í fyrra. Samdrátturinn felst mest í mun færri bílaleigubílum, en fjöldi þeirra dróst saman um 60% fyrstu sjö mánuði ársins. Liðlega 9.300 færri bílaleigubílar voru í umferð nú í júlí en í sama mánuði á síðasta ári. Þá höfðu ríflega sexfalt fleiri bílar verið teknir úr umferð en árið áður. Alls voru rúmlega 15.600 bílaleigubílar í umferð í júlí, en leita þarf aftur til ársins 2014 til þess að finna færri bílaleigubíla á götunum.

Vextir bílalána einnig lækkað

Sennilegt er að margir af þeim bílaleigubílum sem nú eru án númera verði settir á sölu á næstu mánuðum. Rétti ferðaþjónustan ekki úr kútnum á næstunni má svo búast við að fleiri bílar bætist við þann fjölda.

Kórónuveiran hefur haft meiri áhrif á bílamarkaðinn, sem birtast í sögulega lágum vöxtum. Vextir af lánum til bíla- og tækjakaupa hafa lækkað samhliða vaxtalækkunum Seðlabankans, en sú þróun hefur vafalaust örvað söluna. Vaxtakjör eru mismunandi eftir fjármögnunarhlutfallinu, en gróft á litið má segja að vextir á bílalánum hafi almennt lækkað um tvö prósentustig á þessu ári, að því er fram kemur í umfjöllun um mál þessi í bílablaði Morgunblaðsins í dag.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert